22.11.2011
Á undanförnum árum hefur hópur fræðimanna í fjórum háskólum í Evrópu unnið að rannsókn á
lestrarvenjum barna á aldrinum 8–11 ára og jafnframt notkun barnabókmennta í skólastarfi. Markmiðið var að afla upplýsinga um
stöðu mála, greina þær og kynna svo niðurstöður með fjölbreyttum hætti, með vefsíðu, á ráðstefnum, með
greinaskrifum og útgáfu bæði skýrslu og kennsluefnis. Verkefnið var styrkt af Evrópusambandinu (Lifelong Learning Program). Háskólinn á
Akureyri tók þátt í verkefninu ásamt Háskóla Vestur-Englands í Bristol á Englandi, Háskólanum í Mucia á
Spáni og Gazi Háskóla í Ankara í Tyrklandi. Fyrir hönd HA tóku þátt Kristín Aðalsteinsdóttir prófessor við
hug- og félagsvísindasvið og Guðmundur Engilbertsson sérfræðingur á miðstöð skólaþróunar og lektor við hug- og
félagsvísindasvið. Unnið var að rannsókn þar sem spurningalistar voru lagðir fyrir börn og kennara í löndunum fjórum og
niðurstöður greindar tölfræðilega, settar í fræðilegt samhengi og ræddar. Einnig voru tekin rýnihópaviðtöl við börn
og kennara til að fá frekari upplýsingar um lestur og notkun barnabókmennta í skólastarfi. Útbúnar voru leiðbeiningar fyrir kennara um notkun
barnabókmennta í skólastarfi og eru þær aðgengilegar á vefsíðu verkefnisins, á ensku og spænsku. Jafnframt er skýrsla
rannsóknarhópsins aðgengileg á vefsíðu verkefnis á ensku, svo og hér á vefsíðu miðstöðvar skólaþróunar.
Meginniðurstöður rannsóknarinnar eru eftirfarandi:
Marktæk fylgni er milli bókakosts á heimili og áhuga barna á lestri.
Áhugi barna á lestri er breytilegur eftir landi, kyni og aldri en mikill meirihluti barna (yfir 70%) hefur yndi af að vinna með barnabókmenntir sem efnivið
í skólastarfi.
Mikill meirihluti barna í Tyrklandi (80%) segist elska að lesa en aðeins þriðjungur íslenskra barna.
Íslensk börn skrifa sjaldnar (ríflega 50%) um það sem þau lesa í skólanum en börn í hinum löndunum þremur (80–90%).
Í öllum löndunum lesa kennarar oft og títt fyrir nemendur sína, einkum í því skyni að efla áhuga þeirra á lestri en hins
vegar sýna gögn að sammæli séu um gildi þess að nota barnabókmenntir í kennslu.
Á Englandi og Spáni tengja kennarar notkun barnabókmennta við ákvæði námskrár (96–100%) en einungis ríflega helmingur kennara
á Íslandi og í Tyrklandi.
Enskir kennarar virðast nota barnabókmenntir með fjölbreyttari hætti en aðrir kennarar.
Tyrknesku kennararnir fá minni fræðslu um barnabókmenntir í sínu kennaranámi eða í gegnum sí- og endurmenntun að námi
loknu. Þeir eru auk þess yngri og reynsluminni en aðrir kennarar.
Íslensku kennararnir virðast fylgjast mjög vel með útgáfu barnabóka og kynna sér þær – mun frekar en aðrir kennarar.
Aðeins ríflega helmingur íslensku kennaranna segja að í skólastofunum séu leskrókar eða leshorn en slíkt virðist nánast
alsiða í hinum löndunum þremur (yfir 90%).
Þeir sem hafa áhuga á að kynna sé staka þætti rannsóknar, skýrslu og kennsluefni er bent á vefsíðu verkefnis:http://www.um.es/childrensliterature/site/
Rannsóknarhópurinn á ráðstefnu í Tyrklandi
21.11.2011
Fræðslufundur haldinn að Sólborg við Norðurslóð, 24. nóvember 2011 kl. 15:20-16:20 í L-202
„Ætti maður að spyrja að því?“
Bergljót Hallgrímsdóttir, sérkennslustjóri og lekskólakennarí á leikskólanum Sunnubóli á Akureyri. Bergljót lauk
meistaraprófi í menntunarfræðum með áherslu á tjórnun skólastofnana síðatliðið vor. Fræðsluerindið fjallar um
umræður á samskiptasíðunni Barnaland um leikskóla. Gögn voru greind með orðræðugreiningu til þess að komast að
því hvernig er talað leikskóla þar sem foreldrar hittast á samskiptasíðunni og ræða málin. Tilgangurinn var að skoða
orðræðu foreldra um leikskóla: Hvernig þeir tala um leikskólann og um hvað er talað og hvað veldur því að foreldri setur inn
umræðuþráð um leikskóla barnsins.
Upplifun aðstoðarleikskólastjóra af starfi sínu. Viðtalsrannsókn við sex aðstoðarleikskólastjóra
Sólveig Þórarinsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri á leikskólanum Holti í Fellahverfi Reykjavík. Erindi
Sólveigar fjallar um upplifun aðstoðarleikskólastjóra af starfi sínu og stjórnunarhlutverk innan leikskólans. Tilgangur rannsóknarinnar var
að öðlast skilning á starfi aðstoðarleikskólastjóra, hvernig starfi þeirra er háttað og hversu stór hluti af starfi þeirra
felst í stjórnun.
03.11.2011
Fræðslufundur haldinn að Sólborg við Norðurslóð, 3. nóvember 2011 kl. 15:20-16:20 í stofu M-202
Jakobína Áskelsdóttir, leikskólastjóri á TröllaborgumAukin gæði náms í
leikskóla. Góðir hlutir gerast hægt... og festast þá í sessi.
Kynnt verður eigindleg rannsókn á árangri og festingu þróunarverkefnisins Aukin gæði náms – AGN, sem unnin var í
leikskólanum Tröllaborgum á Akureyri árin 2005–2007. Markmið rannsóknarinnar var að skoða hvaða árangur varð af verkefninu
þá, hvort tekist hafi að halda þeim árangri fram til dagsins í dag og hvað varð til þess. Sagt er frá
AGN-skólaþróunarlíkaninu og hvað talið er þurfa til að ná árangri í skólaþróun. Leitað var til starfsmanna
leikskólans til að fá álit og mat á AGNinu, árangri þess og festingu í starfi leikskólans. Kannað var hvort starfsmenn teldu
vinnubrögð AGNsins virk í starfi leikskólans í dag, hvernig það birtist í daglegu starfi og hvaða viðhorf starfsmenn hefðu til
áframhaldandi starfs á forsendum AGNsins.
Meginniðurstöður rannsóknarinnar sýna að AGNið hefur náð að festast í sessi og skilað skólaþróun í
þágu barnanna. Starfsmenn hafa eflst faglega og leikskólinn styrkst að sama skapi. Vinnubrögð AGNsins eru virk í daglegu starfi og viðhaldast með
umræðum, verkefnum og dreifðri ákvarðanatöku. Helsti ávinningur leikskólans sem stofnun er aukin umræða, samheldni, virkni og
þátttaka allra sem í skólanum starfa. Heilt yfir hefur leikskólinn styrkst og allir bætt við sig þekkingu og reynslu, bæði kennarar og
ófaglærðir. AGNið hefur stuðlað að jafnræði innan starfsmannahópsins og fagmennska hefur aukist.
03.11.2011
Í dag 3. nóvember fer fram kynning á nýsköpunarverkefnum í opinberum rekstri. Átján verkefni verða kynnt og þeirra á
meðal kynnir Rósa Eggertsdóttir sérfræðingur á miðstöð skólaþróunar við HA verkefnið Byrjendalæsi.
Byrjendalæsi hefur verið í þróun um nokkurn tíma og hefur notið vinsælda víða í skólum. Eins og nafnið ber með
sér er Byrjendalæsi aðferð í læsiskennslu í fyrstu bekkjum grunnskólans og hefur aðferðin verið þróuð undir hatti
samvirkra aðferða. Fjögur verkefni verða síðan valin til frekari viðurkenningar. Kynningin fer fram á Grand hótel í Reykjavík og hefst kl.
10.45.
03.10.2011
Þú þarft bara að sanna þig: Reynsla kvenna af námi og starfi sem telst óhefðbundið fyrir kyn þeirra
- húsasmíði og tölvunarfræði.
Fræðslufundur haldinn að Sólborg við Norðurslóð, 6. október 2011 kl. 15:20-16:20 í L-202
Katrín Björg Ríkharðsdóttir kynnir rannsókn á reynslu kvenna sem stundað hafa nám sem ekki telst hefðbundið fyrir kyn
þeirra. Sjá nánar.
12.09.2011
Undirbúningur fyrir vorráðstefnu Miðstöðvar skólaþróunar er nú í fullum gangi. Að þessu sinni verður
ráðstefnan haldin laugardaginn 28. apríl 2012. Aðalfyrirlesari á ráðstefnunni verður Leonidas Kyriakides dósent við
Kennaradeild Háskólans á Kýpur.
08.09.2011
Frá árinu 1965 hafa Sameinuðu þjóðirnar helgað 8. september málefnum læsis. Í ár taka Íslendingar í þriðja
skiptið þátt í þessum alþjóðlega degi. Miðstöð skólaþróunar við HA, Amtsbókasafnið og Akureyrarstofa
starfa saman að undirbúningi læsisviðburða.
Á degi læsis verður 30 bókakössum dreift á fjölmenna staði á Akureyri, s.s. í kaffihús, verslanir, flugvöll, banka,
heilsugæslu, umferðamiðstöð, o.fl. Í kössunum eru bækur sem fólk á öllum aldri getur tekið heim með sér. Að lestri
loknum er bókinni komið fyrir í sambærilegum bókakassa eða á stað sem er aðgengilegur öðrum. Hver bókarkápa er merkt með
límmiða þar sem stendur Bók í mannhafið. Bókakassarnir standa út september og lengur ef áhugi er fyrir hendi. Almenningur getur einnig
sett sínar eigin bækur í mannhafið með því að setja límmiða framan á bókina þar sem stendur Bók í
mannhafið oskilja hana eftir á fjölförnum stað.
Umfjöllun um dag læsis í fréttum sjónvarpsins
08.09.2011
Herdís Anna Friðfinnsdóttir kynnir meistaraverkefni sitt við Háskólann á Akureyri, á Sólborg 8. september í stofu L202 k.
15:20-16:20. Erindi Herdísar Önnu heitir Áhrif áhugahvatar á lestrarnám nemenda í 6. bekk grunnskóla : „Ef ég les
eitthvað sem mér finnst skemmtilegt eða spennandi þá langar mig að lesa meira og meira og vita meira...“
Allir velkomnir.
17.05.2011
Fræðslufundur haldinn að Sólborg við Norðurslóð, 26. maí 2011 kl. 16.30 í M-202
Fyrirlesari: Anna G. Thorarensen, sérkennari
Erindið byggir á samnefndu meistaraprófsverkefni frá HA vorið 2010
Í erindinu verður greint frá rannsókn á lestarnámi þriggja barna sem eiga í lestrarerfiðleikum. Rannsakað var hvernig til tókst
þegar þau fóru á lestrarnámskeiðið “Fyrstu skrefin” (e. Early steps) og þeim kennt daglega í samræmi við
niðurstöður lesgreiningar.
Þátttakendur í tilraunaverkefninu voru börn úr 2. bekk grunnskóla. Á námskeiðinu var hver kennslustund fjórskipt og
áhersla lögð á lestur, endurlestur, orðavinnu, æfingar í hljóðkerfisvitund, stafsetningu og ritun.
Rannsóknarspurningin er: Hvaða árangri má ná með lestrarkennsluaðferðinni Fyrstu skrefin með þrem sjö ára börnum sem eiga
í lestrarerfiðleikum, sé þeim kennt í 40 kennslustundir?
Kennslan bar árangur. Börnin lærðu að þekkja bókstafi og hljóð þeirra svo til alveg. Þau lærðu að hljóða sig
gegnum orð og tóku miklum framförum í sjónrænum lestri. Early steps kerfið gerir að jafnaði ráð fyrir 60 kennslustundum með
viðeigandi stuðningi (sömu aðferð) að því loknu. Í ljós kom að 40 stundir reyndust börnunum mjög góð byrjun en ekki
nógu langt til að þau gætu sjálf haldið áfram að efla lestrargetu sína. Sjálfsnám er ekki um að ræða hjá
börnum á þessum aldri svo að þau þurfa áframhaldandi og viðeigandi aðstoð á sömu braut. Sjálfstraust og ánægja
nemenda var áberandi eftir því sem leið á námskeiðið.
22.04.2011
Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 5. maí kl. 16:30. Þar ætlar Hildur Betty Kristjánsdóttir, náms- og
starfsráðgjafi, verkefnastjóri hjá SÍMEY að fjalla um stöðu list- og verkgreina. Fundurinn er haldinn í
húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn.
Umræða um stöðu list- og verkgreina hefur farið fram á Íslandi um alllangt skeið. Hún hefur einkennst af því hvernig auka megi vægi
þeirra innan skólakerfisins. Fram kemur í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 að ráðherra lætur grunnskólum í té
aðalnámskrá og í 24. gr. er lögð áhersla á jafnvægi milli bók- og verklegs náms.
Markmið rannsóknarinnar var að öðlast skilning á tengslum bók-, list- og verknáms á unglingastigi grunnskóla með því
að kanna viðhorf viðmælenda sem hafa faglega þekkingu, reynslu og skoðanir á þessu sviði. Eftirfarandi spurning lá til grundvallar; Hvaða
möguleikar eru á að viðhafa val á milli bók-, list- og verknáms á unglingastigi?
Í kynningunni verður gerð grein fyrir fræðilegum þáttum sem lagðar voru til grundavallar í rannsóknninni og niðurstöður
rannsóknarinnar kynntar.