Menntasýn og gildi


Menntasýn og gildi

Í stefnu UNESCO (1996 og 2009), birtist framtíðarsýn menntunar á 21. öldinni. Þar er fjallað um breytingar í heiminum og þá miklu þekkingu og verkkunnáttu sem nú er aðgengileg og mikilvægt er að kunna að nýta sér. Lögð er áhersla á að hefðbundnar leiðir til menntunar dugi ekki lengur til að komast af í breyttum samfélagi og þess í stað þurfi að undirbúa og efla hæfni einstaklinga til að stunda nám allt lífið. Lögð er áhersla á að menntun sé í eðli sínu bæði persónuleg og samfélagsleg þróun.

Sett eru fram fimm markmið fyrir menntun á 21. öldinni. Þau eru að nám felist í því:

  • að læra að öðlast þekkingu (e. learning to know)
  • að læra að öðlast færni (e. learning to do)
  • að læra að vera (e. learning to be)
  • að læra að lifa í samfélagi við aðra (e. learning to live together)
  • að læra að umbreyta sjálfum sér og samfélaginu (e. learning to transform oneself and society)

Síðasta markmiðið felur í sér sjálfbærni. Þessi markmið ríma í stórum dráttum við aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla (2011) en þar eru lagðir til sex grunnþættir menntunar; læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun. Grunnþættirnir hafa sín sérkenni en eru engu að síður samofnir. Gegnumgangandi í þeim er sú hugsun að grunnþættirnir efli sjálfsskilning og námsvitund nemenda en ætla má að það sé undirstaða náms. Fram kemur í námskránni að menntun eigi meðal annars að efla gagnrýna, sjálfstæða hugsun og hæfileika til þess að bregðast við nýjum aðstæðum. Ennfremur að hún eigi að hjálpa nemendum að tjá skoðanir sínar, takast á við breytingar og taka virkan þátt í lýðræðissamfélagi, innan og utan skóla. Með þetta að leiðarljósi leggur miðstöð skólaþróunar áherslu á að starfa með starfsfólki skóla á vettvangi við að þróa hugar- og starfshætti til að efla skólastarf. Lögð er áhersla á fagleg vinnubrögð og hugarfar sem stuðlar að námsvitund, námshvata og hlutdeild allra í skólasamfélaginu.

Hver skóli er ábyrgur fyrir innra starfi sínu og þarf að þróast á eigin forsendum. Skólaþróun felur í sér nám allra sem hlut eiga að máli og það nám fer fram á vettvangi skólans. Hún beinist að því að bæta það starf sem fyrir er í skólum eða þróa enn frekar það starf sem þegar hefur verið skilgreint gott og farsælt. Umbreytingastarf er líklegast til að skila árangri þar sem samvirkni fagfólks einkennist af kenningum um lærdómssamfélag. Starfsemi miðstöðvar skólaþróunar beinist að því að styrkja kennara, stjórnendur og annað fagfólk í formi ráðgjafar, verkefnisstjórnar, fræðslu eða annars sem talið er henta í hverju tilfelli við þróunarstarf í skólum.

Miðstöð skólaþróunar

Miðstöð skólaþróunar hefur þá stefnu að fella skólaþróunarverkefni að þörfum þeirra aðila sem aðstoðar óska. Því er leitast við að þjónustan sé skólamiðuð þar sem gengið er út frá því sjónarhorni að starfsfólk hverrar stofnunar séu sá hópur sem best er fallinn til að vinna að umbreytingum og þróun skólastarfs. Miðstöð skólaþróunar starfar í nánum tengslum við kennaradeild hug- og félagsvísindasviðs HA. Á hverjum vetri stendur miðstöð skólaþróunar fyrir fræðslufundum sem eru öllum opnir og miða að því að miðla þekkingu í menntunarfræðum til kennara og fagfólks skóla. Þá býður miðstöðin kennurum upp á námskeið af ýmsu tagi og í flestum tilvikum er boðið upp á eftirfylgd í kjölfarið, því rannsóknir sýna að það er árangursríkt ef ætlunin er að festa nýja og/eða breytta starfshætti í sessi.

Í öllu starfi sérfræðinga miðstöðvarinnar er gengið út frá eftirfarandi skilgreiningum á starfsþróun og lærdómssamfélagi:

Starfsþróun

Starfsþróun er samfellt meðvitað og mótað ferli sem leiðir til umbóta og jákvæðrar þróunar. Hún er beintengd daglegu starfi kennara með nemendum og skipulögð í kringum raunveruleg viðfangsefni starfsins. Hún hefur skýran tilgang og markmið og miðar að því að efla færni og þekkingu starfsfólks skóla og auka gæði í starfi. Hún á sér stað í faglegu lærdómssamfélagi, er augljós og samofin hluti daglegs starfs fagfólks skóla og ber einkenni af menningu samfélags í þróun. Hún felur m.a. í sér formlegt nám, innleiðingu í starf á fyrsta starfsári, námskeið, rannsóknir á eigin starfi, þátttöku í þróunarverkefnum, ráðgjöf, ráðstefnur, fræðilestur, skólaheimsóknir svo eitthvað sé nefnt. Stefnumiðuð starfsþróun stuðlar að aukinni starfsánægju, hefur áhrif á árangur í starfi og minnkar líkur á kulnun eða brotthvarfi kennara úr starfi.

Lærdómssamfélag

Áherslumunur getur verið á einstökum skilgreiningum á hugtakinu lærdómssamfélag en samstaða virðist vera meðal fræðimanna um að mikilvægustu einkenni þess séu: sameiginleg ábyrgð á námi og árangri nemenda sem markmiða alls skólastarfs, sameiginleg sýn og gildi, starfsþróun og samvirk fagmennska sem birtist meðal annars í skipulegum félagastuðningi, teymiskennslu og lausnamiðaðri samræðu, ígrundun og þekkingarsköpun. Enn fremur má nefna stjórnskipulag og forystu sem setur umbætur á oddinn og leitast við að valdefla (e. empower) kennara sem umboðsmenn breytinga (e. agents of change) og skapa þeim starfsumhverfi sem miðar að tengslamyndun og samvinnu (DuFour og Fullan, 2013; Hargreaves og Fullan, 2012). Þannig er hugmyndafræði lærdómssamfélaga nátengd hugmyndum um fagmennsku og starfsþróun en sýnt hefur verið fram á að það eru kennarar og stjórnendur sem eru skuldbundnir hugmyndafræðinni sem einkum stuðla að varanlegum breytingum og námi (Fullan og Hargreaves, 2016).