Rósa G. Eggertsdóttir heiðruð fyrir vel unnin störf að menntamálum
11.06.2012
Delta Kappa Gamma eru alþjóðleg samtök kvenna í fræðslustörfum. Á Íslandi hafa samtökin
starfað frá því á áttunda áratugnum en 2. júní 1977 var Betadeild samtakanna stofnuð á Akureyri. Betadeild fagnar
því þrjátíu og fimm ára afmæli um þessar mundir.
Laugardaginn 2. júní hélt Betadeild upp á 35 ára afmæli sitt. Á þeim tímamótum er
tilefni til að heiðra konu fyrir vel unnin störf að mennta- og/eða menningarmálum og hefur deildin gert það á fimm ára fresti. Að þessu
sinni varð Rósa Guðrún Eggertsdóttir sérfræðingur á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á
Akureyri fyrir valinu en hún hefur lagt mikið að mörkum til menntamála.
Rósa hefur haldið ótal námskeið, um flestar hliðar læsis, víðs vegar um landið og unnið með
fjölda kennara að margskonar þróunarverkefnum sem öll miða að bættum árangri nemenda. Auk þess hefur hún haft umsjón með
framhaldsnámi í lestrarfræðum við kennaradeild Hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Til hennar leita gjarnan kennarar og
annað skólafólk eftir góðum ráðum og leiðsögn varðandi hvaðeina er viðkemur læsi.
Rósa er höfundur að nýrri nálgun í lestrarkennslu sem hún nefnir Byrjendalæsi. Aðferðina hefur hún þróað í samstarfi við starfandi kennara
í grunnskólum og samstarfsfólk sitt á Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri. Markmiðið er að
kennarar öðlist aukna fræðilega þekkingu á læsi og færni í lestrarkennslu. Aðferðinni hefur verið mjög vel tekið og mat
á árangri nemenda sýnir jákvæðar niðurstöður. Í vetur vinna um 30 skólar víðs vegar á landinu eftir
aðferðinni. Næsta vetur munu að líkindumum það bil 20 nýir skólar bætast í hóp þeirra skóla sem vilja tileinka
sér þessi vinnubrögð í kennslu læsis.
Rósa hefur gefið út námsefni fyrir grunnskólanemendur og fræðirit
fyrir kennara og annað skólafólk.
Rósa veitti viðtöku viðurkenningu deildarinnar við hátíðlega
athöfn að Hrafnagili, laugardaginn 2. júní sl.
Fyrir hönd stjórnar BetadeildarÞorgerður Sigurðardóttir,formaður