Fréttir

RHA og miðstöð skólaþróunar við HA hljóta styrk vegna rannsóknar á samfélagslegu hlutverki háskóla

        Menntamálaráðherra samþykkti að Rannsóknastofa um háskóla auglýsti í janúar síðastliðnum styrk til rannsóknar á eftirfarandi viðfangsefnum: Hvernig skilja íslenskir háskólakennarar og sérfræðingar starfsskyldur sínar og fagmennsku?   Hvernig skilja íslenskir háskólakennarar samfélag sitt og samfélagslegar skyldur?   Rannsóknina má rekja til þess að í kjölfarið á hruni íslenska bankakerfisins var kallað eftir ítarlegri endurskoðun og mati á ýmsum gildum sem samfélagið hefur verið reist á. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var m.a. vikið að háskólasamfélaginu og gagnrýni á það kom fram. Samþykkti menntamálaráðherra árið 2010 tillögu stjórnar Rannsóknastofu um háskóla um að fé yrði varið til að vinna að rannsóknum á háskólunum í þessu samhengi. RHA og miðstöð skólaþróunar HA hlutu þennan styrk og í raun má líta svo á að með honum sé verið að hrinda af stað stærri rannsókn á þeim viðfangsefnum sem greint var frá að ofan.  Lesa meira

Upplifun foreldra með ADHD eða ADD af heimanámi eigin barna: Samstarf umsjónarkennara og foreldra

Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 31. mars kl. 16:30. Þar ætlar Sigurlaug Elva Ólafsdóttir sérkennari í Oddeyrarskóla á Akureyri að greina frá niðurstöðum rannsóknar sinnar á upplifun foreldra af heimanámi ADHD greindra barna. Fundurinn er haldinn í húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn. Erindið byggir á meistararitgerð sem Sigurlaug Elva vann með nokkrum foreldrum með ADHD/ADD greiningu og umsjónarkennurum barna þeirra vorið 2010. Í erindinu verða kynntar helstu niðurstöður rannsóknarinnar, en tilgangurinn var að öðlast skilning á ADHD meðal foreldra og hvort og þá hvernig röskunin hefði áhrif á upplifun þeirra af heimanámi barnanna. Örfá ár eru síðan farið var að greina á Íslandi fullorðna einstaklinga með ADHD og ekki eru allir á eitt sáttir hvort ADHD sé að finna hjá fullorðnum eða hvort það eldist af börnum. Hvað sem því líður er lítil vitneskja til um þennan hóp og röskunin getur staðið í vegi fyrir öflugu samstarfi milli foreldris og umsjónarkennara. Þekking er mikilvægur þáttur í átt til skilnings og verður efnið nálgast út frá þremur megin þemum: ADHD/ADD, heimanámi og samskiptum/samstarfi.