Fréttir

RHA og miðstöð skólaþróunar við HA hljóta styrk vegna rannsóknar á samfélagslegu hlutverki háskóla

        Menntamálaráðherra samþykkti að Rannsóknastofa um háskóla auglýsti í janúar síðastliðnum styrk til rannsóknar á eftirfarandi viðfangsefnum: Hvernig skilja íslenskir háskólakennarar og sérfræðingar starfsskyldur sínar og fagmennsku?   Hvernig skilja íslenskir háskólakennarar samfélag sitt og samfélagslegar skyldur?   Rannsóknina má rekja til þess að í kjölfarið á hruni íslenska bankakerfisins var kallað eftir ítarlegri endurskoðun og mati á ýmsum gildum sem samfélagið hefur verið reist á. Í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis var m.a. vikið að háskólasamfélaginu og gagnrýni á það kom fram. Samþykkti menntamálaráðherra árið 2010 tillögu stjórnar Rannsóknastofu um háskóla um að fé yrði varið til að vinna að rannsóknum á háskólunum í þessu samhengi. RHA og miðstöð skólaþróunar HA hlutu þennan styrk og í raun má líta svo á að með honum sé verið að hrinda af stað stærri rannsókn á þeim viðfangsefnum sem greint var frá að ofan.  Lesa meira

Upplifun foreldra með ADHD eða ADD af heimanámi eigin barna: Samstarf umsjónarkennara og foreldra

Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 31. mars kl. 16:30. Þar ætlar Sigurlaug Elva Ólafsdóttir sérkennari í Oddeyrarskóla á Akureyri að greina frá niðurstöðum rannsóknar sinnar á upplifun foreldra af heimanámi ADHD greindra barna. Fundurinn er haldinn í húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn. Erindið byggir á meistararitgerð sem Sigurlaug Elva vann með nokkrum foreldrum með ADHD/ADD greiningu og umsjónarkennurum barna þeirra vorið 2010. Í erindinu verða kynntar helstu niðurstöður rannsóknarinnar, en tilgangurinn var að öðlast skilning á ADHD meðal foreldra og hvort og þá hvernig röskunin hefði áhrif á upplifun þeirra af heimanámi barnanna. Örfá ár eru síðan farið var að greina á Íslandi fullorðna einstaklinga með ADHD og ekki eru allir á eitt sáttir hvort ADHD sé að finna hjá fullorðnum eða hvort það eldist af börnum. Hvað sem því líður er lítil vitneskja til um þennan hóp og röskunin getur staðið í vegi fyrir öflugu samstarfi milli foreldris og umsjónarkennara. Þekking er mikilvægur þáttur í átt til skilnings og verður efnið nálgast út frá þremur megin þemum: ADHD/ADD, heimanámi og samskiptum/samstarfi.

Ábyrgð skólastjóra grunnskóla

Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 10. mars kl. 16:30. Þar ætlar Karl Frímannsson, skólastjóri Hrafnagilsskóla í Eyjafjarðarsveit að fjalla um ábyrgð. Fundurinn er haldinn í húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn. Erindið byggir á samnefndu 30 ECTS eininga meistaraprófsverkefni frá HA vorið 2010. Annarsvegar er fjallað um skilning á orðinu ábyrgð og hinsvegar hver ábyrgð skólastjóra grunnskóla er í ljósi grunnskólalaga. Hugtakagreining var notuð til að skilgreina hugtakið en laga- og textagreining til að skoða lögin. Fjallað verður um þrjú skilyrði sem uppfylla þarf ef einstaklingur á að geta borið fulla ábyrgð og þá hvernig sú ábyrgð birtist í lögunum þar sem skólastjóri hefur víðtækar ábyrgðarskyldur en hinsvegar er óljóst hvort hann geti axlað þá ábyrgð. Einnig verður fjallað um ábyrgð annarra hagsmunaaðila í skólastarfi þ.e. nemenda, foreldra og kennara.

Það er enginn aflögufær! Innleiðing nýútskrifaðra kennara í starf í grunnskóla. Reynsla kennara og skólastjórnenda

Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 17. febrúar kl. 16:30. Þar ætlar Helga Hauksdóttir, skólastjóri í Oddeyrarskóla á Akureyri að greina frá niðurstöðum rannsóknar um innleiðingarstarf nýútskrifaðra kennara í grunnskólum. Fundurinn er haldinn í húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn. Eigindleg rannsókn, unnin á vormisseri 2010 sem 30 ECTS eininga lokaritgerð til M.Ed. prófs við Menntavísindasvið HÍ, þar sem sjónum er beint að innleiðingarstarfi nýútskrifaðra kennara í grunnskólum. Gagna var aflað með hálfopnum viðtölum við fjóra kennara á 1. eða 2. starfsári og fjóra skólastjóra við grunnskóla. Einnig var rætt við tvo kennara sem höfðu hætt kennslu  í skólanum sínum eftir nokkur ár í kennslu. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að stjórnendur grunnskóla hafi fullan vilja til að taka vel á móti nýútskrifuðum kennurum. Innleiðingarferlið virðist þó oft ómarkvisst og fela helst í sér kynningu á ýmsum hagnýtum upplýsingum um skólastarfið í upphafi skólaárs og að útvega nýliðanum leiðsagnarkennara. Nýju kennararnir sakna þess að hafa ekki fengið meiri þjálfun á vettvangi í kennaranáminu og þeir segja að skipulag leiðsagnarkennslu þurfi að vera markvissara. Þeir óska eftir auknu samstarfi, umræðum og endurgjöf á starf sitt og meiri nálægð skólastjóra.

Fræðslufundi frestað - Bókvitið verður í askana látið ... en ekki verknámið

Fræðslufundinum með Hildi Betty Kristjánsdóttur hefur verið frestað til 5. maí. Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 5. maí kl. 16:30. Þar flytur Hildur Betty Kristjánsdóttir, náms- og starfsráðgjafi, verkefnastjóri hjá SÍMEY fyrirlestur sem byggir á niðurstöðum rannsóknar um tengsl bók-, list og verknáms á unglingastigi. Fundurinn er haldinn í húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn. Umræða um stöðu list- og verkgreina hefur farið fram á Íslandi um alllangt skeið. Hún hefur einkennst af því hvernig auka megi vægi þeirra innan skólakerfisins. Fram kemur í lögum um grunnskóla nr. 91/2008 að ráðherra lætur grunnskólum í té aðalnámskrá og í 24. gr. er lögð áhersla á jafnvægi milli bók- og verklegs náms. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast skilning á tengslum bók-, list- og verknáms á unglingastigi grunnskóla með því að kanna viðhorf viðmælenda sem hafa faglega þekkingu, reynslu og skoðanir á þessu sviði. Eftirfarandi spurning lá til grundvallar; Hvaða möguleikar eru á að viðhafa val á milli bók-, list- og verknáms á unglingastigi? Í kynningunni verður gerð grein fyrir fræðilegum þáttum sem lagðar voru til grundavallar í rannsóknninni og niðurstöður rannsóknarinnar kynntar.