28.02.2011
Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 10. mars kl. 16:30. Þar ætlar Karl Frímannsson, skólastjóri Hrafnagilsskóla
í Eyjafjarðarsveit að fjalla um ábyrgð. Fundurinn er haldinn í húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við
Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn.
Erindið byggir á samnefndu 30 ECTS eininga meistaraprófsverkefni frá HA vorið 2010. Annarsvegar er fjallað um skilning á orðinu ábyrgð og
hinsvegar hver ábyrgð skólastjóra grunnskóla er í ljósi grunnskólalaga. Hugtakagreining var notuð til að skilgreina hugtakið en laga-
og textagreining til að skoða lögin.
Fjallað verður um þrjú skilyrði sem uppfylla þarf ef einstaklingur á að geta borið fulla ábyrgð og þá hvernig sú
ábyrgð birtist í lögunum þar sem skólastjóri hefur víðtækar ábyrgðarskyldur en hinsvegar er óljóst hvort hann geti
axlað þá ábyrgð. Einnig verður fjallað um ábyrgð annarra hagsmunaaðila í skólastarfi þ.e. nemenda, foreldra og kennara.
04.02.2011
Fræðslufundur verður haldinn fimmtudaginn 17. febrúar kl. 16:30. Þar ætlar Helga Hauksdóttir,
skólastjóri í Oddeyrarskóla á Akureyri að greina frá niðurstöðum rannsóknar um innleiðingarstarf
nýútskrifaðra kennara í grunnskólum. Fundurinn er haldinn í húsnæði Háskólans á Akureyri, Sólborg við
Norðurslóð í stofu L101 og er öllum opinn.
Eigindleg rannsókn, unnin á vormisseri 2010 sem 30 ECTS eininga lokaritgerð til M.Ed. prófs við Menntavísindasvið HÍ, þar sem sjónum er
beint að innleiðingarstarfi nýútskrifaðra kennara í grunnskólum.
Gagna var aflað með hálfopnum viðtölum við fjóra kennara á 1. eða 2. starfsári og fjóra skólastjóra við
grunnskóla. Einnig var rætt við tvo kennara sem höfðu hætt kennslu í skólanum sínum eftir nokkur ár í kennslu.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að stjórnendur grunnskóla hafi fullan vilja til að taka vel á móti
nýútskrifuðum kennurum. Innleiðingarferlið virðist þó oft ómarkvisst og fela helst í sér kynningu á ýmsum hagnýtum
upplýsingum um skólastarfið í upphafi skólaárs og að útvega nýliðanum leiðsagnarkennara. Nýju kennararnir sakna þess
að hafa ekki fengið meiri þjálfun á vettvangi í kennaranáminu og þeir segja að skipulag leiðsagnarkennslu þurfi að vera markvissara.
Þeir óska eftir auknu samstarfi, umræðum og endurgjöf á starf sitt og meiri nálægð skólastjóra.