Minning um Rósu Eggertsdóttur
24.10.2024
Rósa Eggertsdóttir, fyrrverandi sérfræðingur hjá Miðstöð skólaþróunar HA, lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri að kvöldi 17. október eftir langa og hetjulega baráttu við Parkinson-sjúkdóminn.
Rósa hóf störf sem sérfræðingur við Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri árið 1999 og varð starfsmaður Skólaþróunarsviðs kennaradeildar (sem nú er Miðstöð skólaþróunar við HA) við stofnun þess 2001 þar til hún lét af störfum vegna aldurs.
Meginviðfangsefni Rósu allan hennar starfsferil hjá HA voru læsi, skólaþróun og starfsþróun kennara. Þessi þrjú meginviðfangsefni sameinaði hún í þróunarverkefninu Byrjendalæsi sem hún var höfundur að og var meginviðfangsefni hennar hjá Miðstöð skólaþróunar. Í ár eru liðin 20 ár frá því að fyrstu skólarnir tóku þátt í því verkefni og í dag eru um 60 skólar virkir þátttakendur í því. Það hefur náð til mörg hundruð kennara og þúsunda nemenda. Byrjendalæsi var brautryðjendastarf, unnið af djúpri þekkingu á læsi, víðtækri þekkingu á starfsþróun og ráðgjöf við kennara, virðingu fyrir börnum og umhyggju fyrir velferð þeirra og menntun.