Vísindi í námi og leik - vinnustofulota I
Vísindi í námi og leik
Vinnustofulota I
kl. 11.05–12.05
Stofa M201
|
Stærðfræðileiðtoganám: Nýjar áherslur í stærðfræðikennslu á miðstigi Jónína Vala Kristinsdóttir, dósent við Menntavísindasvið HÍ, Guðbjörg Pálsdóttir, dósent við HÍ, Guðný Helga Gunnarsdóttir, lektor við HÍ, Sólveig Zophoníasdóttir og Þóra Rósa Geirsdóttir, sérfræðingar við MSHA
Síðastliðin tvö ár hefur verið unnið þróunarverkefni í samvinnu Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og Starfsþróunar Menntavísindasviðs Háskóla Íslands. Tilgangurinn er að mennta stærðfræðikennara til að vera leiðtogar í þróun stærðfræðikennslu og styðja þá við að leiða starfsþróun um stærðfræðinám og –kennslu í eigin skóla. Byggt hefur verið á stærðfræðiátakinu Matematiklyftet frá Skolverket í Svíþjóð. Í því felst að styðja kennara á afmörkuðu skólastigi með því útbúa lesefni og verkefnahugmyndir sem leiðtogar nýta í vinnu með kennarahópi. Kennarar úr HÍ og HA hafa hitt leiðtoga af miðstigi úr nokkrum grunnskólum reglulega yfir skólaárið. Þá hafa leiðtogar undirbúið vinnu með samkennurum sínum. Á vinnustofunni verður verkefnið kynnt og farið í gegnum fyrsta hluta efnisins. Þannig fá þátttakendur tækifæri til að prófa ýmis verkefni sem fengist hefur verið við og ræða um hvernig má nýta svona efni til að byggja upp námssamfélag stærðfræðikennara.
Netfang: sz@unak.is
|
Stofa L201
|
Jarðvegur sem spennandi kennslumiðill - dæmi um tilraunir og verkefni í menntun til sjálfbærni Guðrún Schmidt, sérfræðingur hjá Landgræðslunni
Það er afar viðeigandi að fjalla um jarðveg í íslenskum skólum þar sem jarðvegs- og gróðureyðing hefur lengi verið og er ennþá stórt umhverfisvandamál hérlendis. Ísland er því lifandi kennslustofa og viðfangsefnið jarðvegur er vel aðgengilegur í náttúrunni. Jarðvegurinn býður upp á fjölda möguleika til verkefnamiðaðs, aðgerðamiðaðs og lausnamiðaðs lærdóms og er einnig gott dæmi til að skýra árekstra mannkyns við hið náttúrulega umhverfi. Jarðvegurinn er ekki einungis mikilvægt viðfangsefni á Íslandi heldur er hann eitt lykilatriða á hnattræna vísu. Má þar nefna sjálfbæra þróun, loftslagsmál og lífbreytileika og hentar jarðvegur þ.a.l. mjög vel sem þema í menntun til sjálfbærni. Auk þess er hann beintengdur reynslu- og upplifunarheimi barna. Þau geta lært hvað þau geta sjálf gert heima fyrir en það opnar einnig augu þeirra fyrir hnattræna vandamálinu og gerir þau fær um að horfa á vandamálið frá sjónarhóli umhverfis, efnahags og samfélags og koma að vinnu við lausnir. Í þessari vinnustofu verður farið yfir nokkur mikilvæg atriði um jarðveginn, þátttakendur fá tækifæri til að prófa fáeinar tilraunir sem henta í kennslu og svo verða kynnt framhaldsverkefni í menntun til sjálfbærni þar sem nemendur þurfa að tengja jarðveginn við sitt daglega líf, loftslagsmálin og sjálfbæra þróun. Tilraunir og verkefni sem verða til umfjöllunar eru hugsuð fyrir mið- og unglingastig grunnskóla en eru einnig áhugaverð fyrir framhaldsskóla.
Netfang: gudrun@land.is
|
Stofa L103
|
Rasberry Pi smátölva - En samt risastór! Ólafur Jónsson, sérfræðingur við HA
Í vinnustofunni fá þátttakendur tækifæri til að prófa smátölvuna Rasberry Pi og skoða hvernig hægt er að forrita hana á fjölbreyttan hátt og tengja við alls kyns fylgihluti eins og t.d. skynjara, takka, ljós, mótora og fleira. Rasberry Pi er lítil og ódýr smátölva sem hentar vel til að kenna forritun í grunn- og framhaldsskólum sem og á háskólastigi. Í vinnustofunni verður m.a. sýnt hvernig hægt er að forrita Rasberry Pi til að keyra myndvinnsluforrit og búa til spilakassa með gömlum (retro) tölvuleikjum. Þeir sem vilja kynna sér Rasberry Pi nánar geta skoðað vefsíðuna: https://www.raspberrypi.org en þar er að finna gagnlegar upplýsingar um smátölvuna og mikið af efni fyrir kennara.
Netfang: olafurj@unak.is
|
Stofa L101
|
Vísindi í leikskólastarfi Guðmunda Inga Gunnarsdóttir og Stefanía Ólöf Reynisdóttir, leikskólakennarar við Leikskólann Akra í Garðabæ
Vorið 2016 var sótt um styrk í þróunarsjóð leikskóla Garðabæjar til að vinna verkefni um vísindi í leikskólastarfi. Í vinnustofunni verður sagt frá verkefninu og þátttakendum gefinn kostur á að prófa verkefnin og skoða námsgögnin sem urðu til. Markmið vísindaverkefnisins voru:
- að safna fjölbreyttum efnivið fyrir vísindastundir og gera hann aðgengilegan
- að skapa fjölbreytilegt leikumhverfi og veita aðgengi að leikefni sem hvetur börn til að rannsaka, finna lausnir og skapa
- að búa til hugmyndabanka fyrir vísindastundir
Meðal verkefna eru t.d. vinna með ljós og skugga, hraða og segul. Verkefnin henta vel til að vekja áhuga og forvitni barnanna á vísindum og einnig til að hvetja börnin til rannsókna og kannana. Þau svið sem mest áhersla er lögð á eru eðlis-, efna- og stjörnufræði. Lögð er áhersla á að börnin skoði efniviðinn og prófi hann með aðstoð kennara. Þó svo að kennarinn taki þátt í uppgötvun barnanna þá skiptir mestu máli að börnin fái að prufa sig áfram. Þau læra að meðhöndla efnin og hella á milli íláta og kynnast þannig þeim vinnubrögðum sem tíðkast í vísindum. Áhersla er lögð á að leikirnir séu málörvandi, þ.e. að börnin læri ný orð og hugtök sem ekki koma fyrir í hversdagslegum samræðum, en nýtast á efri stigum skólakerfisins. Áhersluþættir vísindaverkefnisins skarast á við hinar ýmsu námsgreinar. Reyndar má flétta vísindavinnu saman við alla aðra vinnu í leikskóla, t.d. sköpun, læsi, stærðfræði og upplýsinga- og tæknimennt.
Netfang: gudmundag@leikskolarnir.is
|
|
|
|
|