Stofa N102
|
Náttúra og menning I
Útikennsla er áhrifarík kennsluaðferð Brynhildur Bjarnadóttir, lektor við HA
Náttúran er uppspretta endalausra kennslumöguleika. Útikennsla er áhrifarík kennsluaðferð sem sífellt nýtur meiri vinsælda. Nám í náttúrunni eykur þekkingu á menningu, sögu, samfélagi, manninum sjálfum og ekki síst á umhverfinu. Með markvissri útikennslu má byggja upp samþætt viðfangsefni sem taka til allra þessara þátta. Í erindinu verður fjallað um útikennslu sem kennsluaðferð og þá möguleika sem felast í henni til að samþætta ofangreind viðfangsefni. Hugað verður að því hvernig nýta megi nánasta umhverfi skóla til að auka læsi nemenda á menningu og náttúru.
Tálgun í skólastarfi Bragi Guðmundsson, prófessor við HA og Lovísa Rut Stefánsdóttir, MEd nemi við HA
Lífsleikni nemenda eykst í útikennslu þar sem nemendur læra meðal annars að saga, höggva og nota hníf við ýmis verk til dæmis tálgun. Með kennslu í tálgun læra nemendur ekki aðeins handverksaðferðina heldur fræðast þeir einnig um verðmæti viðarins. Í erindinu verður fjallað um tálgun í skólastarfi þar sem sýndar verða hugmyndir að tálgunarverkefnum sem hægt er að vinna með nemendum á yngsta- og miðstigi grunnskóla. Efniviðinn í hugmyndunum er oftast hægt að nálgast í nærumhverfi skóla og er þá tálgað í ferskan við.
Netfang: brynhildurb@unak.is
|
Stofa M202
|
Íslenskur stjarnfræðingur á miðöldum. Vísindalegur frumkvöðull? Þórir Sigurðsson, lektor við HA
Sögu stjarnvísinda er oft lýst með rannsóknum og kenningum nafnkunnra einstaklinga sem breyttu heimsmyndinni. Í grískri fornöld eru tilnefndir Aristarkos frá Samos sem hélt fram sólmiðjukenningu á 3. öld f. Kr. og Ptólemaíos sem fullkomnaði jarðmiðjukenninguna á 2. öld e. Kr. Í evrópsku vísindabyltingunni endurvakti Kópernikus sólmiðjukenninguna um miðja 16. öld, Kepler uppgötvaði þrjú lögmál um gang reikistjarnanna kringum sólina og sjónauki Galíleós afhjúpaði landslag á Tunglinu, bletti á Sólinni, fylgihnetti Júpíters og stjörnumergð Vetrarbrautarinnar í byrjun 17. aldar.
Tímabilið milli falls Rómarveldis á 5. öld og Endurreisnar á 14. öld er stundum kallað „myrkar aldir“. Ljóstýru í þessu miðaldamyrkri má þó sjá norður á Íslandi. Á 12. öld fékk Oddi Helgason, vinnumaður í Múla í Aðaldal og fiskimaður í Flatey á Skjálfanda, viðurnefnið Stjörnu-Oddi. Lítið er vitað um ævi hans en í handritasafninu Rímbeyglu um tímatal og vísindi varðveittist Odda-tala með athugunum á sólargangi sem eiga sér ekki hliðstæðu í okkar heimshluta á þessum tíma, þó að þær séu einungis fáeinar blaðsíður. Aðferð hans að mæla hæð sólarinnar með því að nota þvermál hennar sjálfrar sem einingu („sólarhvel“) er í senn frumleg og nútímaleg. Reynt verður að útskýra Odda-tölu með útreikningum, töflum og myndum, meta nákvæmni þeirra og giska á mælingaraðferðir. Reifuð verður hugmynd um að reisa Stjörnu-Odda minnisvarða á heimaslóð. Að lokum verður varpað fram spurningum um þýðingu vísindasögu í raunvísindakennslu: Vekur það áhuga að endurtaka sögulegar tilraunir og mælingar, t.d. þær sem Galíleó og Stjörnu-Oddi gerðu? Eykur það skilning að rekja þróun vísindalegrar þekkingar? Er lærdómur að kynnast ævistarfi vísindamanna á liðnum öldum?
Netfang: thorir@unak.is
|
Stofa M203
|
Teaching Hands-on Science on a Shoestring Budget Sean Michael Scully, aðjúnkt við HA
Hands-on experimentation is a critical tool for facilitating meaningful STEM education. Designing hands-on activities that expose students to basic scientific concepts let alone cutting edge topics when access to basic and specialized equipment is scarce, can be a major challenge for educators. Several easily obtainable do-it-yourself approaches to providing access to useful scientific instruments, such as spectrophotometers, will be explored in the context of developing appealing exercises for students. The application of these tools for performing simple experiments in both chemistry and microbiology will be presented. An example of a straightforward yet sophisticated problem-based learning experiment using baker´s yeast (Saccharomyces cerevisiae) for producing biofuel from complex biomass with analysis of all major end products will be explored. Also, the use of these easily obtainable tools and reagents will also be used to demonstrate and discuss an experiment aimed at teaching a “green chemistry” approach to organic synthesis.
Netfang: scully@unak.is
|
Stofa L202
|
Fágæti og furðuverk - náttúrufræði - lestrarhvetjandi vefur fyrir heimili og skóla Ingibjörg Auðunsdóttir, fyrrverandi sérfræðingur hjá MSHA og Sólveig Zophoníasdóttir, aðjúnkt við HA og sérfræðingur hjá MSHA
Í erindinu verður sagt frá verkefninu Fágæti og furðuverk, þróun stafræna hluta þess og sýndur vefur með efni sem tengist náttúrufræði. Við lifum á tímum upplýsingatækni og margmiðlunar og því talið nauðsynlegt að líta til læsis með hliðsjón af því. Læsi er grundvallarfærni og er undirstaða annars náms og það skiptir máli að styðja við læsi á öllum námssviðum. Mikilvægt er að heimili og skólar séu samstíga í því að auka lestrarfærni barna. Alþjóðlegar samanburðarkannanir benda á nauðsyn þess að efla læsi meðal íslenskra drengja og tilvalið að tengja náttúruvísindi og lestur drengja saman og um leið að efla áhuga stúlkna á vísindum. Í niðurstöðum PISA-rannsókna síðustu ára kemur kynjamunur í lesskilningi (e. reading literacy) fram drengjum í óhag. Niðurstöður sem þessar urðu til þess að þróunarverkefnið Curiosity Kit, sem er lestrarhvetjandi samstarfsverkefni heimila og skóla, var þýtt og staðfært. Verkefnið hlaut nafnið Fágæti og furðuverk á íslensku og er ætlað börnum á aldrinum 9 til 11 ára og kemur sérstaklega til móts við áhugasvið drengja. Markmið verkefnisins er að hvetja börn og fjölskyldur þeirra til aukins lestrar og sömuleiðis að styðja fjölskyldur barnanna til að lesa og leika sér með börnum sínum. Frá árinu 2010 hefur verkefnið verið með því sniði að skóli kemur sér upp bekkjarsetti af pokum með mismunandi bókum og fylgihlutum. Börnin velja poka og taka með sér heim og vinna með efni pokans í samvinnu við fjölskyldu sína. Hingað til hefur verkefnið verið í formi taupoka en með aukinni og sífellt aðgengilegri tækni bæði heima og í skólum var ákveðið að uppfæra Fágæti og furðuverk þannig að börnum og foreldrum þeirra sé gert kleift að nota tæknina við að lesa, uppgötva, skapa og miðla. Þróun tækni sem tengist hljóði, mynd, vefsíðugerð, sýndarveruleika, auknum veruleika og fjölbreyttum verkfærum til sköpunar, samskipta og gagnasöfnunar er þess eðlis að það má safna saman fjölbreyttu efni í stafrænan poka. Í málstofunni verður kynnt efni sem örvar áhuga á lestri efnis sem tengist náttúruvísindum.
Netfang: ingibj@unak.is
|
Stofa L203
|
Nýr kennari í náttúrufræðikennslu Arnfríður Hermannsdóttir, framhaldsskólakennari við Menntaskólann á Akureyri
Það er krefjandi starfsumhverfi sem nýir kennarar þurfa að kljást við þegar þeir koma til starfa að loknu kennaranámi. Þrátt fyrir gott nám er ómögulegt að undirbúa sig að öllu leyti fyrir starfið. Erindi þetta fjallar um upplifun nýliða í náttúrufræðikennslu að loknu sínu fyrsta starfsári. Þær áskoranir sem tekist var á við á fyrsta árinu í kennslu, hvernig kennsluhættir þróuðust í takti við starfskenninguna og hvaða forrit og kennsluaðferðir hentuðu best til að ná til nemenda frá sjónarhorni nýliða. Einnig verður fjallað um mótökur skólans og hvaða þættir eru nauðsynlegir fyrir skóla til að taka á móti nýliðum í kennslu svo þeir haldist áfram í starfi.
|
Stofa L102
|
PALS stærðfræði Svava Þ. Hjaltalín og Anna Kristín Arnarsdóttir, grunnskólakennarar í Giljaskóla á Akureyri
PALS nálgun hefur samkvæmt niðurstöðum rannsókna gefið góða raun í skóla án aðgreiningar í Bandaríkjunum og Kanada. Þó nokkur reynsla er af aðferðinni hér á landi, bæði í íslensku og stærðfræði. PALS stendur fyrir pör að læra saman. Markmið leiðarinnar er að koma til móts við náms- og færniþarfir fjölbreytts nemendahóps og gefa kennurum kost á að þjálfa samtímis hóp með félagakennslu. PALS nálgunin virkar mjög vel samhliða annarskonar stærðfræðiaðferðum sem notaðar eru í almennri kennslu og sérkennslu, þar sem um þjálfun er að ræða. Námsþættir eru kunnugir og ríma við námsþætti í íslenskri námskrá. Rannsóknir á PALS aðferðinni hafa staðfest að flestir nemendur hvort sem þeir eru afburðanemendur, í meðallagi eða slakir sýna meiri framfarir en þeir sem ekki fá PALS þjálfun. Það sama gildir um nemendur með námsörðugleika. Aðferðin byggir á paravinnu. Nemendur eru paraðir saman eftir ákveðnu kerfi og kennari gengur á milli nemendapara og veitir endurgjöf eftir þörfum. Í hverjum námsþætti er gert ráð fyrir félagaþjálfun og æfingu. Í félagaþjálfun kenna nemendur hvor öðrum og þeir skiptast á að vera þjálfarar og leikmenn. Í hverri PALS kennslustund eru einnig unnin æfingaverkefni. Nemendur vinna þau einstaklingslega og eru þau tengd viðfangsefni dagsins. Þýddar hafa verið handbækur með leiðbeiningum um kennarastýrðar kennslustundir og verkefnasöfn fyrir hvern árgang frá 2.–6. bekk. Einnig er til handbók fyrir leikskóla og 1. bekk og í henni eru öll þau gögn sem þarf að nota í PALS kennslustundum. PALS er ekki einungis árangursrík leið í stærðfræðikennslu, hún er líka skemmtileg og stuðlar að virkni nemenda.
Netfang: svavah@akmennt.is
|
|
|