Þróunarstarf á vettvangi – Gæði kennslu á unglingastigi
Vormisseri 2022
5 ECTS einingar
Síðasti skráningardagur 10. desember.
Markmið námskeiðsins eru að þátttakendur læri að þekkja einkenni góðrar kennslu og hvernig hún hefur áhrif á nám nemenda og geti nýtt þekkinguna til að þróa eigin kennslu í samstarfi við starfsfélaga. Námskeiðið er tengt rannsókn á vegum norræna öndvegissetursins QUINT (Quality in Nordic Teaching) sem beinist að því að rannsaka gæði kennslu í grunnskólum á Norðurlöndunum með myndbandsupptökum í kennslustundum og hvernig má hagnýta slíkar upptökur til starfsþróunar.
Námskeiðið er í umsjá Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og er metið til 5 ECTS eininga við Kennaradeild HA.
Umsjónarmaður þess er Rúnar Sigþórsson.
Ásamt honum annast kennslu og leiðsögn: Anna Kristín Sigurðardóttir (HÍ), Berglind Gísladóttir (HÍ), Hermína Gunnþórsdóttir (HA) og Sólveig Zophoníasdóttir (HA), Marte Blikstad-Balas prófessor við Háskólann í Osló er ráðgjafi hópsins.
Hæfniviðmið
Að loknu námskeiðinu skal nemandi:
- geta sýnt fram á trausta þekkingu og skilning á fræðilegum forsendum þess þróunarstarfs sem er viðfangsefni hans á námskeiðinu,
- geta nýtt fræðilegan grunn til að gera áætlun um þróunarverkefni á eigin starfsvettvangi og fylgja henni eftir,
- hafa tök á aðferðum til að meta og ígrunda á gagnrýninn hátt framvindu og árangur þróunarstarfs,
- geta unnið skipulega og á gagnrýninn hátt úr mati á framvindu og árangri þróunarstarfs, sett fram niðurstöður og dregið af þeim ályktanir, til dæmis um áframhaldandi þróunarstarf.
Vinnulag og námsmat:
Námskeiðið er skipulagt í þremur tveggja til þriggja tíma lotum sem fara fram með fjarfundabúnaði (Zoom), og þróunarstarfi þátttakenda á milli lotanna. Fyrirhugað er að námskeiðinu ljúki með opinni málstofu seint í apríl. Í upphafi námskeiðsins læra þátttakendur að nota tiltekinn greiningarramma til að meta gæði kennslu og íhuga möguleg áhrif kennslutilhögunar á nám nemenda. Þeir kynnast einnig möguleikum þess að skoða og ræða um eigin kennslu og annarra út frá myndbandsupptökum og því hvernig hægt er að taka upp myndskeið í kennslustundum með búnaði sem til er í flestum skólum.
Þátttakendur velja tiltekinn þátt í kennslu og gera áætlun um þróun hans með aðferðum starfendarannsókna með stuðningi og leiðsögn leiðbeinenda á námskeiðinu.
Æskilegt er að tveir til þrír kennarar úr sama skóla vinni saman og einnig verður lögð áhersla á að allir þátttakendur tengist milli skóla.
Námsmat er byggt á áætlunum nemenda, rannsóknardagbók og skýrslu um árangur þróunarstarfsins og þátttöku í opinni málstofu.
Dagsetningar lota, viðfangsefni hverrar lotu og lesefni verður kynnt síðar.
Námskeiðið verður þátttakendum að kostnaðarlausu.
Mögulega þarf að takmarka fjölda þátttakenda.
Allar nánari upplýsingar gefur Rúnar Sigþórsson, hægt er að hafa samband við hann með því að senda póst á runar@unak.is