Snjallvagninn
Snjallvagninn í máli og myndum.
Snjallvagninn miðar að því að efla kennara í að nýta tækni í skólastarfi. Á Snjallvagninum eru ýmis nýstárleg og spennandi kennslutæki á borð við rótbóta, tæknilegó og þrívíddargleraugu. Hugmyndin er að á Snjallvagninum verði að finna nýjustu kennslugögn í upplýsingatækni og miðlun hverju sinni og að Snjallvagninn sé færanlegur þannig að hægt sé að mæta þörfum nemenda og kennara víðsvegar um land með kynningum og námskeiðum.
Lagt er upp með að tækin á Snjallvagninum henti öllum aldurshópum frá leikskóla og upp í framhaldsskóla. Auk þess er litið svo á að tæknin sé þverfaglegt kennslutæki þar sem lært er í gegnum leik og lausnaleit. Vinna með upplýsingatækni, snjalltækni og stafræna miðlun ætti að vera eðlilegur hluti af starfi í skólum. Þegar snjalltæki eru notuð á skynsamlegan og ábyrgan hátt geta þessir miðlar styrkt skólastarfið og stuðlað að nýsköpun á áhugaverðan hátt. Lagt er upp með að notkunin sé skapandi, markviss, í samhengi við annað nám, kalli á virkni og hlutdeild, sé félagsleg og krefjist ígrundunar. Ennfremur er lögð áhersla á að tengja notkun tækninnar við námskránna og daglegt starf í skólunum.
Markhópur:
Leik- og grunnskólakennarar, starfsfólk í leik- og grunnskólum.
Lýsing:
Á Snjallvagninum eru vönduð tæki sem frumkvöðlar í kennslufræðum hafa mælt með, tæki sem hafa reynst vel í kennslu um allan heim. Oft eru þetta dýr tæki og því dýrmætt fyrir skólastjórnendur og kennara að hafa aðgang að Snjallvagninum. Þar er hægt að skoða og prófa fjölbreytt snjalltæki og máta þau við starfið í skólanum áður en þau eru keypt en með því móti nýtast fjármunir skólanna betur.
Við bjóðum upp á ýmsa möguleika, t.d. Snjallvagnskynningu þar sem við komum með græjurnar í skólana og þátttakendur fá tækifæri til að skoða og prófa fjölbreytt snjalltæki, einnig bjóðum við upp á námskeið í ákveðnum tækjum sem og þróunarstarf með eftirfylgni.
Þátttakendur fá tækifæri til að prófa alls kyns snjalltækni, svo sem forritanlega róbóta (Sphero, Dash og Dot, Cubetto, Code-a-pillar, LEGO), forritun (micro-bit), aukinn veruleika, þrívíddargleraugu, Osmo o.fl. Á Snjallvagninum eru fjölbreytt og spennandi verkfæri sem nýtast í skapandi skólastarfi þvert á námsgreinar.
Markmið:
Markmiðið með Snjallvagninum er að kynna töfraheima tækninnar fyrir kennurum og nemendum og auðvelda skólum að innleiða snjalltækni í skólastarf. Að kennarar og starfsfólk skóla fái tækifæri til að kynna sér fjölbreyttar leiðir til að nota upplýsingatækni í skólastarfi og fái tækifæri til að prófa sig áfram og deila reynslu sinni með öðrum.
Fyrirkomulag:
Í HA eða úti í skólum, kynningar, stutt námskeið, lengri námskeið, þróunarstarf með eftirfylgd.