Rannsóknir á bekkjarstarfi hafa mikið til beinst að tungumálinu, tali kennarans, viðbrögðum nemenda við tali hans og skrifuðum textum. Þessi áhersla á tungumálið byggir á þeirri skoðun að samskipti og nám fari fram í gegnum tungumálið eingöngu. Sú skoðun sætir nú vaxandi gagnrýni. Menn benda á þá augljósu staðreynd að kennarar spila alla jafnan á marga strengi í sinni kennslu, nota til dæmis teikningar, myndir, hluti og jafnvel eigin líkama til að útskýra fyrir nemendum hvað þeir eru að meina. Þessir „aukastrengir“ eru ekkert síður merkilegir en talmál eða ritmál. Sérhver „strengur“ býður upp á ákveðna möguleika til merkingarsköpunar (náms) en hefur líka sín takmörk. Talmál býður upp á ákveðna möguleika en lýtur líka ákveðnum takmörkunum og þetta á við um aðra strengi eða táknunarhætti eins og táknfræðin kallar þá. Þetta skynjum við og finnum að oft getur verið gott að leika á marga strengi samtímis þegar við erum að tjá okkur við aðra, hvort heldur í daglegu lífi eða í skólastofu. Notum þá gjarnan líkamann (látbrigði, svipbrigði, bendingar) en líka teikningar, myndir og hluti. Erum multimódal eða marghátta eins og það er kallað á máli félagslegrar táknfræði. Um þetta hyggst ég fjalla í erindi mínu, freista þess að skoða nám og kennslu í táknfræðilegu ljósi – með þá von í brjósti að slík skoðun megi gagnast þeim sem á mig hlýða. Fyrir þá sem ekki þekkja til félagslegrar táknfræði en vilja kynna sér hana áður en þeir hlýða á erindi mitt leyfi ég mér að benda á pistil sem ég skrifaði nýverið í Skólaþræði og ber yfirskriftina Af tossum og táknfræði. Þar nefni ég til sögunnar helsta forvígismann félagslegrar táknfræði, Gunther Kress. Á YouTube má finna nokkur viðtöl við hann, til dæmis eitt sem kallast „What is multimodality?“ og er að finna á slóðinni https://www.youtube.com/watch?v=nt5wPIhhDDU.
Dr. Hafþór Guðjónsson
Hafþór Guðjónsson útskrifaðist sem lífefnafræðingur frá Háskólanum í Tromsö árið 1976, kenndi efnafræði við Menntaskólann við Sund um tveggja áratuga skeið eftir það en fór síðan til Kanada í framhaldsnám og lauk þar doktorsprófi á sviði menntunar- og kennslufræða árið 2002. Seinni hluta starfsferilsins starfaði hann á Menntavísindasviði Háskóla Íslands, allt til ársins 2017 er hann lét af störfum vegna aldurs. Hafþór hefur skrifað fjölda greina, m.a. um náttúrufræðimenntun, kennaramenntun og starfendarannsóknir, aðallega í Netlu, veftímarit Menntavísindasviðs HÍ. Þá hefur hann skrifað allmarga pistla í Skólaþræði – Tímarit Samtaka áhugafólks um skólaþróun. Að auki hefur hann skrifað nokkrar efnafræði námsbækur fyrir grunn- og framhaldsskóla, meðal annars bókina Efnisheiminn sem er kennd á unglingastigi grunnskólans.