Læs í vor: Hröðun lestrarleikni með stýrðum fyrirmælum og hnitmiðaðri færniþjálfun, íslensk dæmi frá
2001–2014
Guðríður Adda Ragnarsdóttir, atferlisfræðingur og kennsluráðgjafi (adda@ismennt.is)
LÆS Í VOR er námsefni sem undirrituð hefur þróað í starfi sínu sl. 14 ár til að kenna lestur og ritun á íslensku
með kennslutækni stýrðra fyrirmæla (Direct Instruction, DI) og hnitmiðaðrar færniþjálfunar (Precision Teaching, PT). Efnið er
þrepaskipt og kennt í gegnum samtengjandi hljóðaaðferð. Byrjað er á smæstu einingunni –málhljóðinu, og unnið eftir
skynjunar- og verkleiðunum heyra/segja, sjá/segja, og heyra/skrifa. Þegar nemandinn nær fyrirfram settum færnimiðum í hverju þrepi, hefur hann efni
þess á hraðbergi og opnast við það leiðin upp á næsta þrep. Nemendur sem hafa námsefnið LÆS Í VOR á valdi
sínu eru tæknilega læsir. Þeir lesa áheyrilega um 150 rétt atkvæði á mínútu, og rita samsvarandi texta. Sýnt hefur
verið fram á að þegar kennt er með hinni samsettu tækni stýrðra fyrirmæla (DI) og hnitmiðaðrar færniþjálfunar (PT),
leiðir námsefnið LÆS Í VOR til þess að lesleikni margfaldast hjá þeim sem hefja það illa- eða ólæsir,
óháð aldri nemendanna eða ástæðum ólæsisins. Sýnd verða nokkur dæmi frá undanförnum 14 árum af tölulegum
og myndrænum gögnum um árangur og örar framfarir í lestri sem skráð voru í rauntíma á staðlað hröðunarkort (Standard
Celeration Chart). Nemendurnir höfðu greiningu um dyslexíu, einhverfu, tornæmi, og athyglisbrest, eða voru af erlendum uppruna. Einum nemanda var kennt í gegnum
SKYPE.
Erindið verður flutt á íslensku, en texti á skyggnum verður á ensku.