Málstofa 2.4

Gagnvirkur lestur: Náms- og kennsluaðferð á öllum skólastigum
Guðmundur Engilbertsson, lektor við HA (ge@unak.is)

Í gagnvirkum lestri er lögð áhersla á lestrarlag sem beinir huga lesandans að efninu og sjálfum sér, fær hann til að tengja efnið fyrri þekkingu sinni, beita ályktunarfærni, lesa milli lína, gæta að því sem er óljóst og spyrja sig spurninga um efnið og eigin skilning. Aðferðina er hægt að nota sem ferli en jafnframt má leggja áherslu á staka þætti hennar, að taka saman efni, spyrja sig spurninga, leita útskýringa á orðum, hugtökum og efni þegar það er óljóst og spá fyrir um röklegt framhald eða strúktúr. Margar rannsóknir benda til þess að gagnvirkur lestur auki skilning nemenda á les- og námsefni (Brown og Palincsar, 1985; Galloway, 2003; Hattie, 2009; NRP, 2000; Rosenshine og Meister, 1994). Í einni viðamestu rannsókn á tengslum aðferða og námsárangurs kom í ljós að gagnvirkur lestur er ein gagnlegasta náms- og kennsluaðferð sem völ er á (Hattie, 2009). Í málstofuerindinu verður fjallað um gildi gagnvirks lesturs, við ólíkar aðstæður, á ólíkum skólastigum, með eða án texta; og tileinkun aðferðarinnar stig af stigi í skólastarfi.

 


 

Læsi og myndasögur: Fundið fé og ávöxtun þess
Guðmundur Engilbertsson, lektor við HA (ge@unak.is)

Þegar grannt er skoðað eru myndasögur áhugavert lesefni. Þeim hefur þó verið fundið til foráttu að vera frekar innihaldsrýr efniviður, og er þá ekki síður átt við umfang ritmálstexta en inntak, en í ljósi hugmynda um læsi í víðum skilningi (aðalnámskrá leik-, grunn- og framhaldsskóla, 2011) og gildi áhugahvatar í lestri verður að draga verulega í efa gildi slíkra viðhorfa. Ritmálstexti myndasögu er umfangsminni en texti annarra bókmennta en myndmálstextinn er ríkari. Greining á orðtíðni myndasagna hefur leitt í ljós að orðaforði þeirra er hlutfallslega auðugri en flestra annarra dæmigerðra bókmenntatexta (Hayes og Ahrens, 1988). Rannsóknir sýna að þeir sem lesa myndasögur lesa jafnmikið eða meira en þeir sem lesa annars konar bókmenntir og myndasögulestur virðist auk þess stuðla að lestri annarra bókmennta (Krashen, 2004). Það ætti því að vera keppikefli að hlúa að þeim sem lesa  myndasögur, viðhalda áhuga þeirra og næra. Í málstofuerindinu verður fjallað um gildi myndasagna í ljósi læsis í víðum skilningi og rannsókna og færð rök fyrir því að líta ætti á lestur myndasagna sem fé sem rétt er að ávaxta sem best.