Rannsókn á orðaforða íslenskra barna á aldrinum fjögra til átta ára: Framfarir, stöðugleiki og einstaklingsmunur
Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor við HÍ (hragnars@hi.is)
Fjöldi erlendra rannsókna hefur staðfest að þróun orðaforða barna í leikskóla og á fyrstu grunnskólaárunum er
mikilvæg undirstaða læsis og námsárangurs. Í þessum fyrirlestri verða raktar niðurstöður úr fyrstu íslensku
rannsókninni á orðaforða íslenskra barna á þessu aldursbili, þ.e. frá fjögra til átta/níu ára aldurs. 111
börnum var fylgt eftir með tvenns konar mælingum á orðaforða − auk mælinga á fleiri þáttum málþroska og læsis −
við 4, 5, 6 og 8 ára aldur. Myndapróf sem metur viðtökuorðaforða barna (PPVT) var lagt fyrir börnin við 4, 5 6 og 8 ára aldur og próf
þar sem börnin eiga að skilgreina orð (Orðalykill) við 6 og 8 ára aldur. Sterk fylgni reyndist vera milli árangurs á prófunum tveimur og
marktækar framfarir í orðaforða hjá öllum börnunum á milli ára. Jafnframt kom fram gríðarmikill einstaklingsmunur strax fjögra
ára. Þegar hópurinn var komin í fyrsta bekk grunnskóla reyndist slakasti fjórðungurinn t.d. vera með álíka orðaforða og
sterkasti fjórðungurinn var með tveimur árum áður. Mælingarnar voru stöðugar milli ára; þau börn sem flokkuðust í
lægsta getuhópinn (lægstu 25%) fjögra ára voru langflest í lægsta fjórðungnum í fyrsta og áfram í þriðja bekk.
Loks verður drepið á niðurstöður um tengsl orðaforða barnanna við ýmsar bakgrunnsbreytur (tekjur og menntun foreldra, leikskóladvöl,
lestrarmenningu heima).
Rituð textagerð í fyrstu bekkjum grunnskóla: Áherslur í kennslu skipta máli
Rannveig Oddsdóttir, doktorsnemi við HÍ (rannodd@hi.is), Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor
við HÍ, Freyja Birgisdóttir, dósent við HÍ, og Steinunn Gestsdóttir, dósent við HÍ
Samkvæmt ritunarlíkani Berninger (The simple view of writing) eru umskráning, málfærni og sjálfstjórn meginstoðir ritunar. Ýmsar
rannsóknir sýna þó jafnframt að kennsluhættir skóla hafa mikil áhrif á hversu vel börnum sækist ritunarnám. Í
erindinu verður sagt frá niðurstöðum íslenskrar langtímarannsóknar á ritun íslenskra barna í 1.–4. bekk. Markmið
rannsóknarinnar var þríþætt; að kortleggja þá þróun sem verður í ritaðri textagerð á fyrstu árum
grunnskólagöngu, kanna áhrif umskráningarfærni, málþroska og sjálfstjórnar á ritun og gera samanburð á
frammistöðu barna í skóla þar sem mikil áhersla er lögð á ritun á fyrstu skólaárunum og barna í öðrum
skólum. Þær niðurstöður sem hér verða kynntar byggja á gögnum frá 82 börnum í sjö grunnskólum; mælingum
á umskráningarfærni, málþroska og sjálfstjórn í 1. bekk og ritunarmælingum í 2. og 4. bekk. Niðurstöður sýna
að mikil breidd er í færni barnanna öll árin sem að hluta til má rekja til mismikillar færni þeirra í umskráningu,
málþroska og sjálfstjórn. Í gögnunum má þó einnig sjá skýr merki þess að mismunandi áherslur skóla
í ritunarkennslu hafi áhrif á þróun ritunar hjá nemendum. Í þeim skóla sem leggur áherslu á ritun virðast börnin
almennt ná tökum á ritun fyrr en í öðrum skólum og gæði textanna eru stöðugri milli ára en hjá börnum úr
öðrum skólum.