Rannsókn á þjálfun 3 ára barna í tónlist og forlestrarfærni
Helga Rut Guðmundsdóttir, lektor við HÍ (helgarut@hi.is) og Hildur
Halldórsdóttir tónmenntakennari (froken.hildur@gmail.com)
Í þessum fyrirlestri verður kynnt rannsókn á áhrifum tónlistarþjálfunar á forlestrarfærni 3 ára barna. Fyrir
rannsóknina var þróað kennsluefnið Tónmál með bók, geisladiski og hjálpargögnum í þeim tilgangi að
þjálfa 3 ára börn í tónlist og málhljóðagreiningu. Gerð efnisins var styrkt úr Þróunarsjóði
námsgagna og rannsókn á árangri kennsluefnisins var styrkt af Rannsóknarstjóði HÍ. Tæplega 100 3 ára börn tóku
þátt í rannsókninni sem gerð var veturinn 2012-2013. Um 30 börn fengu þjálfun með Tónmál efninu í 12 vikur. Drög að
námsefninu voru kennd í tilraunaskyni haustið 2012 en sjálf rannsóknin og þjálfunin fór fram á vormisseri 2013. Rannsóknin leiddi
í ljós að marktækar framfarir áttu sér stað hjá þjálfunarhópnum í greiningu málhljóða. Einnig var
marktækur munur á frammistöðu þjálfunarhópsins og viðmiðunarhóps hvað varðar málhljóðagreiningu og taktskyn.
Niðurstöður benda til þess að markviss þjálfun í málhljóðagreiningu í gegnum tónlist sé öflug leið til
að byggja upp forlestrarfærni ungra barna.
Áhrif K-PALS aðferða við þjálfun hljóðkerfisvitundar og umskráningar fimm ára barna
Kristín Svanhildur Ólafsdóttir, grunnskólakennari og leikskólaleiðbeinandi
(kristinso@gmail.com) og Anna-Lind Pétursdóttir, dósent við HÍ (annalind@hi.is)
Sagt verður frá rannsókn á áhrifum af K-PALS (Kindergarten
Peer Assisted Learning Strategies) við kennslu 5 ára leikskólabarna í hljóðaþekkingu og umskráningu. K-PALS felur í sér
aðferðir til félagakennslu, þróaðar af Douglas og Lynn Fuchs við Vanderbilt háskóla. K-PALS hefur verið þýtt og staðfært
á íslensku og notað undanfarin ár í leik- og grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Í K-PALS er unnið
með hljóðkerfisvitund, samband stafs og hljóðs og umskráningu orða. Gert er ráð fyrir 25-35 mínútna kennslustundum, fjórum sinnum
í viku í samtals 70 kennslustundir, en í þessari rannsókn voru kennslustundirnar alls 30-45, tvisvar til fjórum sinnum í viku. Í framhaldi af
innlögn kennara í hverri kennslustund, vinna nemendur saman í pörum. Þátttakendur í rannsókninni voru 58 börn á fjórum
leikskólum, öll á lokaári í leikskóla, þar sem 30 þeirra fengu kennslu með K-PALS aðferðum en 28 fengu hefðbundna kennslu í
undirstöðuþáttum lesturs. Hljóðkerfisvitund, fimi í þekkingu á heitum og hljóðum bókstafa, þekkingu á heitum og
hljóðum bókstafa, lestur orða og orðleysa voru mæld við upphaf inngrips og undir lok þess hjá báðum hópunum. K-PALS
hóparnir mældust hærri á öllum breytum fyrir utan fimi í heitum bókstafa, við lok inngrips. Fjallað verður um niðurstöður
rannsóknarinnar og þær ræddar í samhengi við fyrri rannsóknir á þessu sviði, bæði erlendis og hérlendis.
„Það hefur bara jákvæð áhrif á þau“: Upplifun starfsmanna leikskóla á notkun K-PALS aðferða til að
þjálfa byrjandi lestrarfærni hjá fimm og sex ára leikskólabörnum
Kristín Helga Guðjónsdóttir grunnskólakennari (kristinhg@simnet.is) og Anna-Lind
Pétursdóttir, dósent við HÍ (annalind@hi.is)
K-PALS (Kindergarten Peer-Assisted Learning Strategies) felur í sér aðferðir til að ýta undir byrjandi lestrarfærni fimm og sex ára barna. Nemendur
vinna saman í pörum og þjálfa hvor annan eftir að kennari hefur kynnt verkefni. Markmiðið með þessari rannsókn var að kanna hvernig
starfsmönnum leikskóla þykir að vinna með aðferðir K-PALS. Tekin voru hálfstöðluð viðtöl við þrettán starfsmenn fimm
leikskóla á höfuðborgarsvæðinu. Viðtölin leiddu í ljós að þrátt fyrir neikvæðni í garð
aðferðanna í byrjun sáu starfsmenn fljótt að K-PALS bar árangur og viðhorf þeirra urðu jákvæðari. Starfsmenn voru
sammála um jákvæð áhrif aðferðanna á lestur og félagsfærni barnanna og tóku eftir greinilegum framförum. Þeir
höfðu allir góða upplifun af því að vinna með K-PALS aðferðirnar þó hugmyndir kæmu fram um hvernig mætti bæta vinnu
með þær og einhverjir vildu hafa K-PALS sjaldnar í viku. En viðmælendum fannst árangur barnanna vera greinilegur og að börnin væru
ánægð og stolt og það fannst starfsmönnum skipta mestu máli. Af niðurstöðum rannsóknarinnar má draga þær ályktanir
að K-PALS henti vel sem viðbótarefni við það lestrarumhverfi sem fyrir er í leikskóla og að leikskólastarfsmönnum líki vel
að vinna með aðferðir K-PALS.