Málstofa 1.3
Lestur á skilum leik- og grunnskóla: Samfella – námsefnisrek
Gerður G. Óskarsdóttir, forstöðumaður Rannsóknastofu um þróun
skólastarfs við HÍ (ggo@hi.is)
Kynntar eru niðurstöður athugunar á þáttum sem snerta lestrarnám á skilum leik- og grunnskóla. Markmiðið er að varpa ljósi
á lestrarnám við þessi skil með hliðsjón af lagaákvæðum um samfellu í námi og að tekið skuli mið af stöðu
hvers og eins í skólastarfi (einstaklingsmiðun), jafnframt því sem horft er til námsefnisreks niður skólakerfið (námsefni eða
viðfangsefni í námi rekur frá einu skólastigi niður á það næsta). Niðurstöður byggja á vettvangsathugunum í 13
leik- og grunnskólum í 25 skóladaga, 32 viðtölum við starfsmenn og nemendur og rýningu gagna. Lýst er námsumhverfi, kennsluháttum og
inntaki. Einnig er fjallað um upplýsingamiðlun um stöðu barna frá leikskóla til grunnskóla. Við greiningu niðurstaðna er vísað til
samfellukenningar Dewey, skilgreiningar á einstaklingsmiðuðu námi og hugmynda um námsefnisrek. Niðurstöður benda til að samfella í
lestrarnámi á mörkum skólastiganna sé frá því að vera nokkur fyrir minnihluta nemenda yfir í talsverða endurtekningu eða
það sem hér er nefnt afturhverft rof fyrir stóran hóp. Einstaklingsmiðun var vart viðhöfð og upplýsingamiðlun almennt takmörkuð
við nemendur með sérstuðning. Námsefnisrekið virtist ekki fyllilega viðurkennt. Athugunin er hluti af rannsókninni Skil skólastiga: Frá
leikskóla til grunnskóla og frá grunnskóla til framhaldsskóla (Gerður G. Óskarsdóttir, 2012).
Ferilbók: Vörður á leið til læsis
Sigurlaug Rún Brynleifsdóttir, deildarstjóri við Grunnskólann austan Vatna (silla@ghji.is) og Halldóra
Haraldsdóttir, dósent við HA (hh@unak.is)
Erindið byggir á meistaraprófsverkefni sem unnið var við kennaradeild Háskólans á Akureyri. Markmið verkefnisins var að þróa
ferilbók sem heldur utan um þróun máls og læsis eins til tíu ára gamalla barna. Verkefnið byggir á fræðilegri greiningu og er
sjónum beint að bernskulæsi, málþroska, lestri og ritun, leshömlun og tvítyngi. Ferilbókin er hugsuð sem skráningarkerfi sem varðar
leiðina til læsis. Henni er jafnframt ætlað að halda utan um niðurstöður skimana og prófa sem nú þegar eru notuð í leik- og
grunnskólum. Ætlast er til að skráning í ferilbókina hefjist þegar börn byrja í leikskóla, við eins árs aldur og er
bókinni ætlað að fylgja barninu til loka yngsta stigs grunnskólans. Með þessu móti skapast tækifæri til ákveðinnar samfellu
í námi barnsins. Mikilvægi samfellu í námi og kennslu barna á milli skólastiga verður aldrei of oft tíunduð og er þess vænst
að ferilbókin fylli upp í ákveðið tómarúm á þessu sviði. Ferilbókinni fylgir handbók sem geymir tillögur að
leiðum til íhlutunar ásamt ábendingum um náms- og kennsluefni sem hægt er að nota í kennslu og sem stuðning við læsisnám barna.
Í erindinu verður stuttlega greint frá megin rannsóknum til grundvallar verkinu en aðal áhersla lögð á kynningu ferilbókarinnar ásamt
handbók.