Leiðsagnarnám
Leiðsagnarnám miðar að því fylgjast með í námsferlinu sjálfu og nota niðurstöðurnar til að gera nauðsynlegar breytingar á náms- og kennsluháttum. Námsmenning sem einkennist af leiðsagnarnámi eflir námsvitund nemenda og eykur skilning þeirra á því hvernig þeir geta hagað námi sínu til að ná sem bestum árangri. Í þróunarstarfinu dýpka þátttakendur þekkingu sína á námsmenningu sem einkennist af leiðsagnarnámi og auka hæfni sína við að flétta áherslum leiðsagnarnáms inn i náms-og kennsluáætlanir og samþætta daglegum viðfangsefnum.
Markhópur:
Kennarar í grunn- og framhaldsskólum.
Umfang:
Þróunarstarf í tvö ár.
Lýsing:
Í leiðsagnarnámi felst sjálfskoðun bæði kennara og nemenda og hvatning til að velta fyrir sér náms- og kennsluháttum með gagnkvæmri endurgjöf. Leiðsagnarnám eflir námsvitund nemenda og eykur skilning þeirra á því hvað og hvernig þeir læra og hvernig þeir geta hagað námi sínu til að ná sem bestum árangri. Í aðalnámskrá segir m.a. að leggja skuli áherslu á leiðsagnarnám sem byggist á því að börn og unglingar ígrundi nám sitt með kennurum sínum til að nálgast eigin markmið í náminu og ákveða næstu skref. Leiðsagnarnám miðar að því fylgjast með og sjá stöðuna meðan á námi stendur í námsferlinu sjálfu og nota niðurstöðurnar til að gera nauðsynlegar breytingar á náms- og kennsluháttum. Námsmenning sem byggir á leiðsagnarnámi þjónar áherslum aðalnámskrár, tekur til grunnþátta menntunar, lykilhæfniþátta og áhersluþátta laga.
Markmið
Að styðja þátttakendur við endurskoðun og þróun náms- og kennsluhátta m.t.t. leiðsagnarnáms með það að markmiði að ná betri árangri, öðlast hæfni til að beita leiðsagnarnámi í daglegu starfi og geta samþætt það daglegum viðfangsefnum.
Að loknu þróunarstarfi hafa þátttakendur:
- þekkingu á fræðilegri umgjörð og gildi leiðsagnarnáms fyrir námsárangur
- þekkingu á grundvallaruppbyggingu leiðsagnarnáms
- endurskoðað náms- og kennsluhætti sína og þróað þá áfram m.t.t. leiðsagnarnáms
- eflt hæfni sína við gerð náms- og kennsluáætlana sem byggja á markmiðum og áherslum aðalnámskrár og leiðsagnarnáms
- þekkingu á og geta notað fjölbreyttar leiðsagnarnámsaðferðir
Fyrirkomulag:
Þróunarverkefnið samanstendur af vinnustofum, ráðgjafa-og samráðsfundum, vettvangsheimsóknum í skóla auk þess sem gert er ráð fyrir samvinnu og samráði innan skólanna. Hver vinnustofa skiptist í fræðslu og verkefnavinnu og undirbúning fyrir vinnu á vettvangi.
Inntak - fyrra ár
1. hluti - Fræðileg umgjörð - námsmenning sem grunnur að leiðsagnarnámi.
Þátttakendur ígrunda námsmenningu og kennsluhætti í eigin skóla og leggja drög að áætlun til að vinna eftir við þróun náms- og kennsluhátta á vettvangi. Rýnt í skipulag og umgjörð skólastarfs og tækifæri til umbóta.
2. hluti - Hugarfar og námsmenning
Umfjöllun um hvað einkennir hugarfar vaxtar og hvernig má efla það með nemendum. Þátttakendur ræða um leiðir til að auka gæði samskipta og samvinnu, hvernig efla má frumkvæði nemenda og hjálpa þeim til axla ábyrgð á eigin námi og þróa með sér námsvenjur til aukins árangurs.
3. hluti - Námskrá og námsmarkmið
Þátttakendur ræða hvernig námsmarkmið og viðmið um árangur eru notuð í kennslunni. Unnið út frá aðalnámskrá. Þátttakendur skipta hæfniviðmiðum námsviðs upp í lotur, skilgreina meginmarkmið, þemu og lykilspurningar og skipuleggja náms- og kennsluáætlanir. Rætt um tengsl markmiða og árangursviðmiða og hvernig þau eru gerð nemendum ljós.
4. hluti - Námsvitund og námsfélagar
Í vinnustofunni verður rætt um hvernig nota má spurningar og samræður á markvissan hátt í leiðsagnarnámi. Rætt um samvinnu í námi og mikilvægi þess að eiga námsfélaga. Í lotunni verða hagnýtar leiðir kynntar og æfðar og hvernig flétta má þeim inn í daglegt starf.
5. hluti - Endurgjöf sem lykill við leiðsögn í námi.
Í vinnustofunni verður endurgjöf í brennidepli. Farið verður yfir lykilatriði endurgjafar og hvernig hún er tengd námsmarkmiðum og árangursviðmiðum. Rætt verður um mismunandi endurgjöf og hvernig æfa má nemendur í að nýta og veita endurgjöf. Rætt um sjálfsmat og jafningjamat og hagnýtar leiðir æfðar.
6. hluti - Samantekt
Í lokavinnustofunni miðla þátttakendur reynslu og leggja drög að áframhaldandi þróun náms og kennslu í skólunum sínum. Mat lagt á stöðu og árangur og lagðar línur um hvaða þætti þarf að styrkja betur, fá frekari fræðslu og umræður um næsta vetur.
Inntak - seinna ár
1. hluti - Námsmenning - námsskrá og námsmarkmið
Upprifjun og dýpkun á grunnatriðum leiðsagnarmats/leiðsagnarnáms. Línur lagðar fyrir starf vetrarins, rýnt í skipulag og unnin drög að áætlun um frekari þróun náms- og kennslu.
2. hluti - Skólasamfélagið og þáttur foreldra
Í vinnustofunni verður rætt um samvinnu heimila og skóla um nám og árangur. Rætt verður um fjölbreyttar leiðir til samstarfs eins og t.d. nemendastýrð samtöl á foreldradegi og hvernig hægt er að miðla upplýsingum á merkingarbæran hátt til aðstandenda nemenda og auka hlutdeild þeirra í námi nemenda.
3. hluti - Áhugi - námsmarkmið - fyrirmyndir - viðmið
Fjallað verður um mikilvægi áhugahvatar og góðra fyrirmynda í námi og hvernig vitund um námsmat getur haft djúpstæð áhrif á námsáhuga nemenda og trú þeirra á eigin getu. Einnig verður fjallað um námsmarkmið og hversu þýðingarmikið það er að þau séu bæði sýnileg og skiljanleg nemendum. Þátttakendur velta fyrir sér hvernig markmiðin geta hjálpað nemendum að ná ákveðinni færni og hvernig kennarar geta unnið að því að raddir nemenda fái að njóta sín.
4. hluti - Endurgjöf - viðmið og sóknarkvarðar
Í vinnustofunni verður farið yfir hagnýtar leiðir til að veita endurgjöf til nemenda. Til að endurgjöf skili árangri þurfa nemendur að geta nýtt sér hana til framfara. Skoðuð verða verkfæri sem styðja kennara og nemendur í endurgjöf s.s. notkun sóknarkvarða, minnismiða, kvhl (kann, vil vita, hvernig og hef lært) og fl.
5. hluti - Fjölbreytt námsmat - leiðsagnarmat og lokamat
Í vinnustofunni verða kynntar fjölbeyttar leiðir til að meta nám nemenda. Þátttakendur skoða muninn á lokamati og leiðsagnarmati sem felur í sér mat í þágu náms og mat sem hluta af námi. Einnig verður fjallað um hvernig hægt er að nýta námsmat og niðurstöður þess til að bæta nám nemenda og efla námsvitund þeirra m.a. með því að styrkja nemendur í að byggja upp eigin þekkingu og nýta námsmat til að setja sér markmið og velja leiðir að þeim.
6. hluti - Samantekt
Í lokavinnustofunni miðla þátttakendur reynslu og leggja drög að áframhaldandi þróun náms og kennslu í skólunum sínum. Mat lagt á stöðu og árangur og lagðar línur varðandi hvernig þróunarstarfinu verður viðhaldið og það fest í sessi í skólanum.
Grunnlesefni:
Nanna Kristín Christiansen. 2021. Leiðsagnarnám, Hvers vegna, hvernig, hvað? Reykjavík, Oddi.
Erna Ingibjörg Pálsdóttir. 2011. Fjölbreyttar leiðir í námsmati. Að meta það sem við viljum að nemendur læri. Reykjavík, Iðnú.