Föstudaginn 13. september síðastliðinn fór fram Námstefna í Byrjendalæsi við Háskólann á Akureyri, þar sem fjölmennur hópur kennara og áhugafólks um læsi á yngsta stigi grunnskólans kom saman til að eiga samtal um læsi og deila spennandi hugmyndum og aðferðum.
Aðalfyrirlesarar ráðstefunnar voru fjórir:
- Bergmann Guðmundsson, grunnskólakennari og verkefnastjóri, fjallaði um forrit sem hægt er að nýta til að styðja við lestur og nám
- Bergrún Íris Sævarsdóttir rit- og myndhöfundur, fjallaði um myndlæsi
- Guðmundur Engilbertsson læsisfræðingur og deildarforseti við kennaradeild HA fjallaði um hvernig hugmyndir um læsi hafa þróast og hvernig hægt er að haga námi og þannig að það stuðli að læsi til nútíðar og framtíðar.
- Rannveig Oddsdóttir dósent við kennaradeild HA fjallar um niðurstöður rannsóknar á lestrarfærni barna í 1.–2. bekk í Byrjendalæsisskólum.
Námstefnugestum stóðu til boða sjö málstofuerindi:
- Guðrún Guðbjarnardóttir og Nanna María Elfarsdóttir fjölluðu um uppbyggingarverkefni á þriðja þrepi með áherslu á skapandi skil
- Halla Kristín Tulinius og Rannveig Sigurðardóttir fjölluðu um Samræðufélaga - nýtt námsefni fyrir nemendur sem læra íslensku sem annað mál
- Emilía Þorsteinsdóttir og Þórdís Þórisdóttir byrjendalæsisleiðtogar sögðu frá starfendarannsóknum sem þær gerðu á lokaári í Leiðtoganámi í læsi
- Brynhildur Sigurðardóttir fjallaði um samræður og hvernig hægt er að virkja spurningar nemenda
- Anna Sigrún Rafnsdóttir og Sigríður Ingadóttir sögðu frá Læsi fyrir lífið - þróunarverkefni í læsi fyrir mið- og unglingastig
- Kristín Jóna Sigurðardóttir og Brynhildur Erla Jakobsdóttir, fjölluðu um hvernig þær hafa nýtt aðferðir Byrjendalæsis í Íslenskukennslu í 5. og 6. bekk
- Ásdís Björg Gestsdóttir og Þorbjörg Erla Jensdóttir sögðu frá samþættingu í 1. bekk út frá verkefni um líkamann
Námstefnan sem haldin er á tveggja ára fresti er mikilvægur vettvangur fyrir fagfólk til að koma saman, eiga samtal um læsiskennslu og fá innblástur. Með því að nýta nýjustu rannsóknir, deila reynslu og kynnast nýjum aðferðum er hægt að stuðla að framförum nemenda og bættri lestrarfærni.
Við á Miðstöð skólaþróunar þökkum þátttakendum, fyrirlesurum og málstofuflytjendum fyrir framlag sitt og hlökkum til næstu námstefnu sem haldin verður haustið 2026.