Föstudaginn 24. september lögðum við land undir fót og héldum til Grindavíkur til að hitta leik-, grunn-, og tónskólakennara á sameiginlegum starfsdegi allra skólastiga. Þar voru tekin fyrstu skrefin í þriggja ára sprotaverkefni sem kallast Teymisvinna. Verkefnið snýst um að innleiða vinnubrögð lærdómssamfélagsins í skólasamfélag Grindavíkur, þ.e. leikskóla, grunnskóla, tónlistarskóla og skólaskrifstofu. Það verður m.a. gert með því að þróa teymisvinnu og samstarfsmenningu, efla dreifða forystu með leiðtogum í teymum, styðja stjórnendur í kennslufræðilegri forystu og styðja kennara í að nýta fjölbreyttar og gagnreyndar aðferðir til að koma til móts við mismunandi þarfir nemenda.
Við á MSHA erum svo sannarlega spennt fyrir þessu verkefni og hlökkum til samstarfs við skólasamfélagið í Grindavík!