Í Síðuskóla á Akureyri hafa nemendur verið að vinna með bókina Sumardagur í Glaumbæ.
Markmiðið hjá kennurum var að fræða nemendur um líf og störf barna á 19. öld, þau unnu með þessa bók eftir aðferðum Byrjendalæsis og samþættu vinnuna við fleiri fög.
Í tilefni þessarar vinnu fengu kennararnir hana Christinu Finke safnkennara hjá Minjasafninu á Akureyri til að koma og spjalla við nemendur. Christine kom með tvær fjársjóðskistur með sér og upp úr þeim týndi hún ýmsa dýrgripi sem börn höfðu notað sem leikföng og verkfæri hér áður fyrr, þar mátti m.a. sjá forláta skauta og ýmis konar bein.
Christine sýndi þeim verkfæri sem notuð voru við ullar- og mjólkurvinnslu. Í fræðslunni hjá henni kom m.a. fram börn í gamla daga byrjuðu miklu fyrr að vinna en börn gera í dag. Nemendur urðu mjög undrandi þegar hún sagði þeim frá því að á sumum bæjum þurftu börn að skila tveim pörum af prjónuðum vettlingum á viku í vinnu. Fræðslan hjá Christine var bæði áhugaverð og skemmtileg fyrir nemendur og kennara og nemendur voru mjög sáttir þegar þeir fengu að snerta alla hluti og prófa.