Menntamálastofnun og Háskólinn á Akureyri hafa í dag undirritað samstarfsyfirlýsingu. Markmið samstarfsins er að efla rannsóknir á menntun með því að nýta sameiginlega sérfræðiþekkingu og gögn. Þannig verði sérfræðingum Háskólans á Akureyri gert kleift að nýta sér í rannsóknarskyni gögn sem Menntamálastofnun aflar t.d. með prófum og þátttöku í alþjóðlegum könnunum. Jafnframt verði fræðileg túlkun og greining gagna styrkt með því að miðla sérfræðiþekkingu milli Háskólans og Menntamálastofnunar.
Menntamálastofnun og Háskólinn á Akureyri munu skilgreina sameiginlega verkefni um fræðilega ráðgjöf, öflun, greiningu og úrvinnslu gagna á afmörkuðum sviðum. Á grundvelli slíkra skilgreindra verkefna geta aðilar samhæft gagnaöflun að uppfylltum öllum skilyrðum laga og reglna sem um slíka vinnslu gilda m.a. um persónuvernd og reglum um vísindarannsóknir. Sérstakur samningur verður gerður um hvert verkefni.
Forstöðumenn stofnanna hafa yfirumsjón með samstarfsverkefnum en verkefnisstjórnir, sem skipaðar eru um hvert verkefni, sjá um framkvæmd þeirra.
Aðilar munu á árlegum fundi með fulltrúum frá öllum samstarfsverkefnum leggja fram mat á árangur samstarfsins og endurmeta áherslur. Komi upp ágreiningur um framkvæmd eða niðurstöður verkefna skal honum vísað til forstöðumanna stofnananna sem vinna munu sameiginlega að úrlausn mála. Báðir aðilar geta sagt sig frá einstaka verkefnum eða samstarfinu í heild með þriggja mánaða fyrirvara.
Elín Díanna Gunnarsdóttir forseti hug- og félagsvísindasviðs HA og Arnór Guðmundsson forstöðumaður Menntamálastofnunar undirrituðu samstarfsyfirlýsingu.