Nýtt námsefni á Degi leikskólans

Til hamingju með Dag leikskólans!

Í tilefni af Degi leikskólans kynnum við nýtt og spennandi námsefni, Samræðustundir í Orðaleik. Námsefnið samanstendur af handbók og átta rafbókum með myndum og samræðukveikjum sem tengjast orðaþemum Orðaleiks. Námsefnisgerðin var styrkt af Þróunarsjóði námsgagna og er efnið notendum að kostnaðarlausu og aðgengilegt á vef.

Í námsefninu Samræðustundir í Orðaleik er lögð áhersla á markvissa vinnu með orðaforða, skilning og tjáningu barna undir handleiðslu kennara. Rafrænu samræðubækurnar eru efniviðurinn sem kennarar nota í vinnu með börnunum. Hver bók inniheldur ákveðið orðaþema sem spurningar, samræður og leikir beinast að. Kennarar geta valið úr orðaþemum sem vekja áhuga og forvitni barnanna og í vinnu við bókina geta þeir valið þyngdarstig spurninga sem fellur að stöðu og færni í notkun tungumálsins. 

Samræðubækurnar eru byggðar þannig upp að hver opna inniheldur mynd eða myndir á vinstri síðu en á hægri síðu eru spurningar og leiðbeiningar ætlaðar kennara. Hentugt er að vinna með samræðubækurnar í spjaldtölvu en einnig má prenta myndir út og gera þannig aðgengilegar börnunum og nota á fjölbreyttan hátt í skólastarfinu. 

Dagur leikskólans er tileinkaður því mikilvæga starfi sem fram fer í leikskólum landsins og þeirri ómetanlegu vinnu sem leikskólakennarar og starfsfólk leikskóla inna af hendi á hverjum degi. Með útgáfu þessa námsefnis viljum við styðja við það frábæra málræktarstarf sem fram fer í leikskólum.

Við sendum hlýjar kveðjur til allra sem starfa í leikskólum og vonum að námsefnið nýtist vel. 

Samræðustundir í orðaleik - smelltu hér till að skoða námsefnið.