Byrjendalæsi er samvirk aðferð í læsiskennslu þar sem barnabækur og aðrir rauntextar gegna lykilhlutverki sem uppspretta fjölbreyttra viðfangsefna og námstækifæra. Aðferðin hefur verið í þróun í rúman áratug í samstarfi Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og grunnskóla víðs vegar um landið.
Byrjendalæsi er byggt á samvirku læsislíkani. Samkvæmt því er gengið út frá að lestur byggist jöfnun höndum á færni í að umskrá bókstafi og orð, og sjálfstæðri merkingarleit þar sem lesandi nýtir meðal annars mál- og bakgrunnsþekkingu sína til að öðlast skilning á texta.
Í Byrjendalæsi er vinna með tal, hlustun, lestur og ritun felld í eina heild undir hatti læsis. Ennfremur eru sértækir þættir tungumálsins, svo sem hljóðvitund, réttritun, skrift, orðaforði og lesskilningur tengd inn í ferlið.
Nú hefur Byrjendalæsi eignast sína eigin vefsíðu þar sem hægt er að fræðast um aðferðina og á hvaða stoðum hún byggir.