Við á MSHA erum stolt af því að vera aðilar að Menntamiðju og Menntafléttunni.
Menntamiðja er vettvangur fyrir samstarf aðila menntakerfisins um þróunarstarf og nýsköpun. Á dögunum opnaði Menntamiðja nýja og glæsilega vefsíðu sem er ætlað að vera gátt að starfsþróun kennara, stjórnenda og annars fagfólks skólasamfélagsins. Á vefsíðunni er að finna starfsþróunartilboð frá eigendum Menntamiðju sem og tilboð sem spretta upp úr grasrót faghópa í menntakerfinu. Á vefnum verður jafnframt hægt að nálgast upplýsingar um styrki og sjóði sem standa til boða. Þá verður af vefnum miðlað viðburðum og rannsóknum sem eiga erindi við menntakerfið og hagsmunaaðila þess.
Menntafléttan er samstarfsverkefni Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennarasambands Íslands. Mennta- og menningarmálaráðuneytið styrkir Menntafléttuna og þróuð verða 45-50 námskeið sem eru kennurum og starfsfólki í menntakerfinu að kostnaðarlausu. Þróuð verða námskeið í stærðfræði, náttúrufræði og íslensku og á fjölbreyttum sviðum náms, kennslu, sjálfbærrar þróunar, vellíðunar, frístundastarfi og forystu. Námskeiðin styðjast við hugmyndafræði sænskra námskeiða á vegum Skolverket.
Markmið Menntafléttunar
- Efla námssamfélög í skóla- og frístundastarfi um land allt
- Styðja við samstarf á öllum sviðum menntunar
- Þróa námskeið sem fléttast saman við daglegt starf
- Vinna með leiðtogum af vettvangi við þróun og kennslu námskeiða
- Styðja við menntastefnu 2030 og Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna
Menntafléttan er fyrir kennara, starfsfólk og stjórnendur í leik-, grunn- og framhaldsskólum, auk listaskólum og frístundastarfi. Rauður þráður Menntafléttunnar er að stuðla að þróun námssamfélaga í skólum og á vinnustöðum þátttakenda.
Námskeiðin fléttast saman við daglegt starf, innan þess svigrúms sem þátttakendum hafa til starfsþróunar. Kjarni námskeiðanna eru þróunarhringir þar sem hver þátttakandi fer í gegnum fjögur skref með hópi samstarfsfólks.
Á nýjum og glæsilegum vef Menntamiðju og Menntafléttunnar finnið þið upplýsingar um námskeiðin okkar auk fleiri áhugaverðra og hagnýtra námskeiða fyrir skólafólk.