Ný læsisstefna, Læsi er lykillinn kynnt á Akureyri
Í dag var formlega kynnt á vegum fræðslusviðs Akureyrarbæjar og Miðstöðvar skólaþróunar HA að viðstöddu fjölmenni, ný læsisstefna, Læsi er lykillinn.
Megintilgangur læsisstefnunnar er að efla læsi í víðum skilningi og stuðla að skapandi og gagnrýninni hugsun barna og ungmenna.
Læsisstefnan er afrakstur rúmlega þriggja ára ferlis sem hefur byggst á öflugri samvinnu margra aðila. Skipulag vinnunnar tók mið af hugmyndum um lærdómssamfélag (e. learning community) þar sem lögð var áhersla á að allir sem hlut eiga að máli kæmu að vinnunni.
Læsisstefnan Læsi er lykillinn er byggð á ástralskri fyrirmynd en þróuð og staðfærð að aðalnámsskrá íslenskra leik- og grunnskóla.
Unnið er út frá hugmyndafræðinni um læsi í víðum skilningi sem skiptist í þrjú meginsvið: Samræða, tjáning og hlustun, lestur, lesskilningur og lesfimi og ritun og miðlun. Hagnýt gögn stefnunnar byggja á þrepum um þróun læsis, þar sem sett eru fram viðmið um færniþætti og áherslur í kennslu út frá öllum þáttum læsis.
Samvinna við kennara á vettvangi leik- og grunnskólanna hefur verið lykilatriði í þróun á innihaldi stefnunnar en sérfræðingar á Miðstöð skólaþróunar við HA hafa stýrt verkinu.
Læsisstefnan „Læsi er lykillinn“ birtist á heimasíðunni www.lykillinn.akmennt.is og er hún opin öllum. Á síðunni er að finna heildaráherslur stefnunnar ásamt ýmsu ítarefni sem er hagnýtt bæði fyrir kennara, foreldra og aðra þá sem hafa áhuga á læsi barna.
Hönnunarfyrirtækið Geimstofan, auglýsinga- og skiltagerð á Akureyri sá um hönnunarvinnu á útliti efnis á síðunni.