Dagana 7. og 9. desember sl. voru haldin tvö forritunarnámskeið í Háskólanum á Akureyri fyrir kennara á svæði Eyþings. Um var að ræða þróunarnámskeið í verkefninu Skapandi skólastarf en það er samstarfsverkefni Eyþings og Háskólans á Akureyri.
Markmið Skapandi skólastarfs er m.a. að styðja leik-, grunn- og framhaldsskólakennara á Norðurlandi eystra við að þróa starfshætti sína í anda íslenskrar menntastefnu og grunnþátta hennar með sérstakri áherslu á skapandi hugsun, tækni og virkni. Hlutverk Háskólans á Akureyri í verkefninu er að leggja til kennslufræði- og tæknilega ráðgjöf um hvernig hægt er nýta tækni á skapandi hátt í skólastarfi og auka hæfni kennara og nemenda til að takast á við áskoranir á þeim sviðum.
Á fyrra námskeiðinu lærðu þátttakendur að nota vefsíðuna Code.org og forrita verkefni síðunnar og á seinna námskeiðinu lærðu þátttakendur að forrita Micro:bit. Námskeiðin voru ætluð byrjendum í forritun og alls tóku 12 áhugasamir kennarar þátt og þökkum við þeim kærlega fyrir þátttökuna, góða samveru, endurgjöf og mat.
Raddir þátttakenda að loknum námskeiðum
Í Micro:bit forritun felst frelsi og hugmyndaflugið er það eina sem bindur þig. Opnaði augu mín um möguleika Micro:bit. Fengum að prufa og líka sjá hvernig hægt er að taka forritun á næsta skref (aukahlutir). Þetta er skemmtileg viðbót við nám/kennslu. Góðir kennarar og gott andrúmsloft. Ég vissi ekkert um foritun og lagaðist kunnátta mín mikið. Þörf á fræðslu og kennslu í forritunarvinnu fyrir börn. Farið nógu rólega yfir fyrir byrjendur, og ekki gert ráð fyrir að maður kunni allt saman. Gaman líka að sjá hvernig allir hjálpuðust að.
Fleiri námskeið á döfinni
Eftir áramót verður óskað eftir kennurum til að taka þátt í þróunarnámskeiðum í forritun t.d. Sphero og þá verður fókusinn einnig á forritun fyrir yngsta skólafólkið og kennt á Kubb (cubetto) og Osmo (coding). Eins og áður eru námskeiðin ætluð byrjendum í forritun. Fylgist með!
|