Háskólinn á Akureyri stendur við sína gagnrýni um hvernig gögn Menntamálastofnunar um árangur Byrjendalæsis hafa verið sett fram og túlkuð.
Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri hefur ákveðið að efna til málþings um læsi laugardaginn 10. október næst komandi á Akureyri til þess að færa umræðuna um læsi og læsiskennslu á hærra plan en birst hefur almenningi í fjölmiðlum undanfarna daga. Markmið þessa málþings er að skapa vettvang fyrir málefnalega umræðu um fjölbreyttar og árangursríkar aðferðir í læsiskennslu og matsaðferðir sem meta þá hæfni sem stefnt er að og aðalnámskrá kveður á um. Illuga Gunnarssyni, mennta- og menningarmálaráðherra, og Arnóri Guðmundssyni, forstjóra Menntamálastofnunar, er sérstaklega boðið að taka þátt í pallborðsumræðu um þetta mál.
Markmið með læsi eru mörg en í umræðunni undanfarna daga hefur athyglin einkum beinst að niðurstöðum samræmdra prófa sem einungis meta hluta af þeim markmiðum sem unnið er að í nútíma skólastarfi. Á málþinginu verður lögð áhersla á að ræða alla þætti læsis sem mikilvægir eru taldir í námskrá, s.s. að nemendur sýni áhuga og virkni í læsi, hafi gott vald á tengslum stafs og hljóða, auk þess að ná góðum hraða og öryggi í lestri og ritun. Einnig verður lögð áhersla á að ræða aukna færni í lesskilningi, ályktunarhæfni og gagnrýninni hugsun og að tjá sig á skapandi hátt út frá lestri, hlustun, tali og ritun.
Miðstöð skólaþróunar er sjálfstætt starfandi eining innan hug- og félagsvísindasviðs Háskólans á Akureyri. Hún er rekin af sjálfsaflafé og fær ekki fé af fjárlögum. Hún hefur ekki hagnað að markmiði en til að fjármagna starfsemina innheimtir hún kostnaðarverð fyrir verkefni. Miðstöðin hefur verið starfrækt síðan 1999 og er vettvangur til að styrkja tengsl Háskólans á Akureyri við samfélagið og efla starfsþróun kennara. Hún er ein sinnar tegundar á Íslandi og starfar með um helmingi skóla um allt land.
Miðstöð skólaþróunar sinnir fjölmörgum verkefnum fyrir utan Byrjendalæsi. Vaxandi fjöldi skóla sem hefur valið Byrjendalæsi staðfestir að gott orð hefur farið af því starfi. Fjárhagur miðstöðvar skólaþróunar hefur verið þröngur enda er hagnaður ekki markmiðið eins og fyrr hefur komið fram heldur þjónusta háskólasamfélagsins við skólana í landinu. Skólarnir 38 sem fjallað er um í minnisblaði Menntamálastofnunar yfir tímabilið 2005–2010 greiddu samtals 15.774.132 kr. til miðstöðvar skólaþróunar fyrir þá þjónustu á því tímabili vegna innleiðingar og þróunar Byrjendalæsis. Miðstöðin sinnir lögbundinni sérfræðiþjónustu fyrir Akureyrarbæ samkvæmt sérstökum samningi. Þjónusta við skólana á Akureyri um Byrjendalæsi er hluti af þeim samningi og er ekki hluti af fyrrgreindri upphæð.
Þeir sem vilja vera með erindi á málþinginu eru hvattir til að láta vita sem fyrst og hafa samband við Birnu M. Svanbjörnsdóttur forstöðumann miðstöðvar skólaþróunar á netfangið: birnas@unak.is
Nánari dagskrá málþingsins verður kynnt síðar. Málþingið verður öllum opið.