Háskólasjóður KEA styrkir verkefnið Hugleikur - samræður til náms

Verkefnið Hugleikur - samræður til náms er unnið í samstarfi kennaradeildar Háskólans á Akureyri, miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og valinna leik-, grunn- og framhaldsskóla á Eyjafjarðarsvæðinu og næsta nágrenni. Vinnuheiti verkefnisins er Hugleikur – samræður til náms og er meginmarkmið verkefnisins að búa til og þróa námskeið í samræðuaðferð (Socratic seminar model) fyrir kennara á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi og rannsaka áhrif samræðunnar á nám og kennslu. Samræðuaðferð felur í sér að spyrja spurninga sem hvetja til ígrundunar í þeim tilgangi að efla með nemendum gagnrýna hugsun og hæfni til að ræða saman um viðfangsefni. Í þróunarferlinu verður kennurum kennd samræðuaðferð sem þeir síðan nota og þjálfa á vettvangi með nemendum. Í verkefnisstjórn eru Guðmundur Heiðar Frímannsson, Jenný Gunnbjörnsdóttir, Jórunn Elídóttir og Sólveig Zophoníasdóttir og hún tók á móti styrknum fyrir hönd hópsins. Þetta er í tólfta sinn sem úthlutað er úr Háskólasjóði KEA og að þessu sinni voru veittir átta  rannsóknastyrkir.

KEA