Þann 7. nóvember var haldin ráðstefna um geðrækt í leikskólum í Háskólanum á Akureyri. Tólf leikskólar á Eyjafjarðarsvæðinu stóðu að ráðstefnunni í samstarfi við Miðstöð skólaþróunar og voru ráðstefnugestir um 360 talsins. Ráðstefnan var vel heppnuð og varpaði ljósi á ýmsa þætti sem áhrif á líðan barna og starfsfólks í leikskólum.
Kristján Már Magnússon sálfræðingur og Sæunn Kjartansdóttir sálgreinir héldu aðalerindi ráðstefnunnar. Kristján fjallaði um andlega líðan starfsmanna í leikskólum með áherslu á vellíðan starfsfólks. Vellíðan hefur jákvæð áhrif á starfsánægju, afköst, samskipti og samstarf og því mikilvægt að rækta heilbrigt vinnuumhverfi þar sem traust og virðing eru í forgrunni. Sæunn hélt erindi um mikilvægi tengsla milli ungbarna og foreldra, áhrif þeirra og birtingarform í daglegu lífi. Sæunn ræddi sérstaklega um þau hættumerki sem gefa til kynna vandamál í tengslamyndun og benti á hvernig starfsfólk leikskóla getur gegnt mikilvægu hlutverki í að styðja börn sem eiga í erfiðleikum með tengsl.
Auk aðalerindanna voru í boði fjölbreyttar málstofur þar sem fjallað var um ýmis mál tengd leikskólastarfinu. Þar má nefna málstofur um tengslamyndun, gæðastundir, hæglæti, þjónandi leiðsögn, aga, svefn, næringu, útinám, leik, listir og farsæld. Einnig var boðið upp á innlegg um málþroskaröskun, ÍSAT, flóttabörn, tilvísanir og starf aðstoðarleikskólastjórans.
Mikil ánægja var með daginn sem einkenndist af gleði, samstöðu og virðingu fyrir störfum þeirra sem starfa í leikskólum. Miðstöð skólaþróunar og undirbúningsteymi ráðstefnunnar þakka ráðstefnugestum, fyrirlesurum, málstofu- og vinnustofuflytjendum kærlega fyrir komuna og þeirra framlag til dagsins.