Háskólinn á Akureyri (HA) í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu (MMS), Akureyrarbæ og Kennarasamband Íslands (KÍ) bjóða á Ráðstefnu um gæði kennslu.
Miðstöð skólaþróunar og Kennaradeild Háskólans á Akureyri standa sameiginlega að ráðstefnu um gæði kennslu. Á ráðstefnunni verður kynnt efni nýrrar bókar sem er að miklu leyti byggð á íslenskum niðurstöðum rannsóknar á gæðum kennslu á Norðurlöndununum, QUINT, sem lauk á síðasta ári.
Í bókinni eru 15 kaflar þar sem fjallað er um gæði kennslu og námstækifæra nemenda frá ýmsum hliðum. Á ráðstefnunni verður efni bókarinnar kynnt í þremur aðalerindum og sjö málstofum og lögð áhersla á að ræða hvernig megi hagnýta það í skólastarfi og kennaramenntun.
Aðalerindin flytja: Anna Kristín Sigurðardóttir, Birna María Svanbjörnsdóttir, Hermína Gunnþórsdóttir og Rúnar Sigþórsson.
Efni ráðstefnunnar á erindi til allra sem láta sig varða um gæði menntunar í íslenskum skólum, ekki síst kennara á öllum skólastigum, kennaranema og kennsluráðgjafa.