Um helgina fór fram á vegum miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri námstefna um Byrjendalæsi og
ráðstefnan Læsi til samskipta og náms. Annað hvert ár heldur miðstöð skólaþróunar nám- og ráðstefnu sem
tileinkaðar eru læsi og haldnar sem næst degi læsis 8. september. Yfir 300 áhugasamir og ánægðir kennarar tóku þátt í
ráðstefnuhaldinu að þessu sinni og var þeim boðið upp á fjölbreytta og spennandi dagskrá. Meðal efnis voru aðalfyrirlestrar um
lesskilning, áhugahvöt og facebook notkun ungs fólks. Auk þess voru rúmlega 40 erindi í boði og fjölluðu þau um læsi frá
margvíslegum sjónarhornum. Menntamálaráðherra kom og ávarpaði hópinn og ráðstefnugestir voru hvattir til að tísta um
það sem þeim fannst áhugavert og merkja umræðuna með #MSHAnamstefna14 og #MSHAradstefna14. Við þökkum öllum þeim sem tóku
þátt í nám- og ráðstefnunni um helgina og hlökkum til að sjá ykkur sem flest á vorráðstefnunni þann 18. apríl
2015.
Gunnar Svavarsson nemandi á fjölmiðlanámskeiði Símenntunar við Háskólann á Akureyri tók saman umfjöllun um
ráðstefnuna, talaði við nokkra ráðstefnugesti og við Birnu Svanbjörnsdóttur forstöðumann miðstöðvar
skólaþróunar HA.
Hér er hægt að hlusta á umfjöllun Gunnars: fyrri hluti og seinni hluti.
Og hér er hægt að skoða samantekt á tístum frá námstefnu um Byrjendalæsi 12. september og frá ráðstefnunni Læsi til samskipta og náms 13. september.