Þátttakendur á málþingi um hæfnimiðað námsmat
Mennta- og menningarmálaráðuneytið hélt málþingið í samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Kennarasamband
Íslands. Á þinginu var fjallað um nýtt námsmat, sem grundvallast á hæfni nemenda og er kynnt í nýjum
aðalnámskrám leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Fjallað var um námsmat í skólastarfi í víðum skilningi og
tækifæri gafst til að miðla hugmyndum og reynslu milli skóla og skólastiga.
Málþingið fór fram á tveimur stöðum Háskólanum á Akureyri og Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Inngangserindi og
kynningar voru sendar út samtímis á vef í gegnum fjarfundabúnað. Málstofur á Akureyri voru skipulagðar af miðstöð
skólaþróunar við Háskólann á Akureyri og voru þátttakendur 107 fyrir norðan. Inngangsfyrirlestrar þingsins voru fjórir og
var fyrirlestur Jóns Baldvins Hannessonar skólastjóra í Giljaskóla sendur út frá Akureyri.
Málþingið tókst í alla staði vel og verður afrakstur málstofa birtur á vef Mennta- og menningarmálaráðuneytisins namskra.is
og víðar.