Menntamálastofnun birti á vef sínum niðurstöður á greiningu á árangri skóla sem tekið hafa þátt í Byrjendalæsi. Skoðaður var árangur nemenda á samræmdum könnunarprófum í 4. bekk.
Samkvæmt greiningunni hefur námsárangur skólanna í íslensku og lesskilningi ekki hækkað þegar horft er til landsmeðaltals og árangurs skólanna áður en innleiðing Byrjendalæsis hófst. Þetta eru upplýsingar sem mikilvægt er að skoða vel og af yfirvegun. Því þarf að vera tryggt að gagnrýni sem sett er fram standist ítarlega skoðun.
Miðstöð skólaþróunar gerir athugasemdir við framsetningu á gögnum Menntamálastofnunnar.
Um verkefnið
Byrjendalæsi er samvirk kennsluaðferð ætluð til læsiskennslu barna 1. og 2. bekk sem þróuð hefur verið á vegum Miðstöðvar skólaþróunar við Háskólann á Akureyri undir forystu Rósu Eggertsdóttur. Við mótun aðferðarinnar var einkum sótt til Frost (1983a, 1983b, 1984), Gudschinsky (1965, 1970; Lee, 1982), Solity (1999, 2003), Leimar (sjá Bryndís Gunnarsdóttir 1988), NRP (2000), Rumelhart (1985) og Zakaluk (1982/1996). Alls hafa um 80 skólar af 170 víðs vegar um landið átt samstarf við HA um innleiðingu Byrjendalæsis.
Meginmarkmið Byrjendalæsis er að börn nái góðum árangri í læsi sem allra fyrst á skólagöngu sinni. Þegar börn hefja nám í 1. bekk eru þau misjafnlega á vegi stödd. Sum þekkja stafi, önnur eru farin að lesa og svo er hópur sem þarf að læra alla stafina og hvernig á að vinna með þá. Byrjendalæsi gerir ráð fyrir því að hægt sé að kenna börnum sem hafa ólíka færni í lestri hlið við hlið og því er lögð áhersla á hópvinnu um leið og einstaklingsþörfum er mætt. Vinna með tal, hlustun, lestur og ritun er felld í eina heild undir hatti læsis. Ennfremur eru sértækir þættir móðurmálsins, svo sem hljóðvitund, réttritun, skrift, orðaforði, setningabygging og málfræði hluti af ferlinu.
Staða nemenda er metin þrisvar á ári og ítarlegar niðurstöður ligga fyrir um framvindu verkefnisins milli ára, skóla og kynja.
Á eftirfarandi mynd má sjá hlutfallslegan árangur nemenda í Byrjendalæsi í 1. bekk frá 2007–2013 samkvæmt skimunarprófum miðstöðvar skólaþróunar. Bláa súlan sýnir hlutfall nemenda sem ná 0–30% árangri, rauða súlan sýnir 30–60% árangur og sú græna 60–100% árangur.
Langtímaáhrif verkefnisins
Það er áhugaverð spurning hvaða áhrif þátttaka í Byrjendalæsi hafi á lestur barna og ungmenna til lengri tíma, svo sem lestrarhraða, lesskilning, fjölbreytni lesefnis og vægi yndislestrar í lífi þeirra. Einnig kann að vera áhugavert að skoða hvort Byrjendalæsi gefi nemendum forskot sem jafnaldrar þeirra geti ekki unnið upp yfir lengri tíma.
Minnisblaði Menntamálastofnunar „Greining á árangri nemenda í skólum sem tekið hafa þátt í Byrjendalæsi“ virðist ætlað að meta slík langtímaáhrif verkefnisins. Það byggir þó ekki á því að árangur einstakra nemenda sé metinn í gegnum skólakerfið, heldur meðaltalsútkomu nemenda í 4. bekk á samræmdum könnunarprófum í þeim skólum sem innleitt hafa Byrjendalæsi í 1. og 2. bekk.
Í minnisblaðinu er meðaleinkunn einstakra skóla í stærðfræði, íslensku og undirþættinum lesskilningi á fjögurra ára tímabili fyrir innleiðingu Byrjendalæsis borin saman við meðaltal hvers árs næstu átta árin þar á eftir. Niðurstaða minnisblaðsins er að námsárangur nemenda í íslensku og stærðfræði hafi lækkað marktækt við innleiðingu Byrjendalæsis. Lækkunin sé almennt um 1 stig að meðaltali í þessum skólum á stöðluðum kvarða frá 0 – 60 með meðaltal 30 og staðalfrávik 10.
Takmarkanir minnisblaðsins
Sú aðferð sem Menntamálastofnun beitir hefur þann kost að hún er einföld í framkvæmd. Hún hefur hins vegar margvíslega alvarlega galla sem gera ályktanir minnisblaðsins nánast marklausar.
- Niðurstöður samræmdra prófa hafa staðlað meðaltal og staðalfrávik fyrir öll ár. Greining þeirra sýnir því hlutfallslega stöðu einstaklinga og skóla gagnvart öðrum það ár en segir ekki til um aukna eða minnkandi þekkingu eða færni nemendahópsins milli ára.
- Breytingar á meðaltali skóla yfir tíma gefa vísbendingu um breytingar á samsetningu nemendahópsins og breytingar á starfi skólanna. Þær eru hins vegar ekki beinn mælikvarði á áhrif kennsluhátta á nám einstaklinga. Hópurinn sem hefur nám í 1. bekk getur verið annar en tekur próf í 4. bekk.
- Samanburður á niðurstöðum skóla allt að átta ár fram í tímann er afar varasamur, enda ótal þættir aðrir en innleiðing Byrjendalæsis sem hafa áhrif á slíkar breytingar. Þannig má benda á að fjögurra ára meðaltal lesskilnings á árunum 2000–2003 skýrir aðeins um 31% af mismunandi árangri skóla á árinu 2004 og einungis 16% af árangri skóla árið 2011.
- Umtalsverðar óútskýrðar sveiflur eru á meðaltölum einstakra skóla á samræmdum prófum Menntamálastofnunar. Þannig sveiflast meðaleinkunn einstakra skóla í lesskilningi til dæmis að meðaltali 2,3 stig á ári í kringum meðaltal skólans á tímabilinu 2000–2014. Meðaleinkunn skóla sjö árum eftir innleiðingu Byrjendalæsis er að meðaltali 0,8 stigum lægri en meðaltal við innleiðingu, en 1,4 stigum lægri en meðaltal fjögurra ára þar á undan.
- Samanburður við fjögurra ára tímabil áður en fyrsti árgangur í Byrjendalæsi kemur í fjórða bekk er varasamur, enda getur innleiðing Byrjandalæsis haft margvísleg áhrif í skólastarf skólans. Þannig skorar til dæmis árgangurinn á undan fyrsta árgangi Byrjendalæsis að meðaltali mun hærra í lesskilningi en árgangarnir þrír á undan og árgangarnir sjö á eftir.
Línuritið í minnisblaðinu er óskýrt og skýringartexti þyrfti að vera nákvæmari
- Óljóst er, samkvæmt því, hvenær áhrifa Byrjendalæsis fer að gæta.
- Það vekur furðu hve mikill munur er á meðaltalsárangri í íslensku og lesskilningi á fyrsta ári samkvæmt línuritinu. Er punkturinn fyrir lesskilning á réttum stað?
- Þegar skólar ákveða að innleiða nýja aðferð tekur það kennara tíma að tileinka sér aðferðina og áhrifa hennar gætir alla jafna ekki fyrr en eftir að innleiðingarferli lýkur. Árangur Byrjendalæsis er vaxandi frá fimmta ári einmitt þegar kennarar hafa náð valdi á aðferðinni.
- Í Byrjendalæsi eru tvö innleiðingarár en í línuritinu kemur það ekki fram.
- Hvergi kemur fram í textanum að aftan við brotalínuna eru færri skólar á bak við hvert meðaltal (25 skólar á 5. ári; 14 skólar á 6. ári; 9 skólar á 7. ári). Því er varla rétt að nota gögnin með þessum hætti.
- Ósamræmi er milli texta og myndar sbr. meðaltalstölur sem eru innan sviga á síðu 2, hvaða tölur eru réttar?
- Í textanum hefði þurft að benda á að fall á árangri er komið fram í skólum áður en Byrjendalæsi fer að hafa áhrif.
Byrjendalæsi var þróað með það að markmiði að efla læsi nemenda og uppfylla markmið aðalnámskrár og íslenskrar menntastefnu. Hugmyndafræðin sem liggur til grundvallar byggir á aðferðum sem rannsóknir hafa sýnt að skili árangri í læsiskennslu. Í aðferðinni er lögð áhersla á heildstætt og merkingarbært nám þar sem jafnvægi er á milli lesturs, ritunar, talaðs máls og hlustunar. Aðferðir Byrjendalæsis gera faglegar kröfur til kennara og skóla sem ákveða að vinna eftir aðferðinni og fara skólarnir í gegnum tveggja ára starfsþróunarferli með stuðningi miðstöðvar skólaþróunar. Starfsþróun og breyting á skólastarfi tekur tíma og gögnin sem Menntamálastofnun byggir á eru frá viðkvæmum tíma þegar kennarar eru að tileinka sér og ná tökum á starfsháttum Byrjendalæsis.
Niðurstaða
Innra mat á árangri Byrjendalæsis bendir til að árangur barna sem læra eftir aðferðum Byrjendalæsis, hefur verið umtalsverður. Samanburður undanfarinna ára sýnir að börn ná betri árangri í lestri og hefur gagnast börnum sem hafa átt erfitt með að læra að lesa.
Minnisblað Menntamálastofnunar getur ekki talist áreiðanlegt mat á langtímaáhrifum verkefnisins fyrir námsframvindu þeirra nemenda sem tóku þátt í því við upphaf skólagöngu. Greiningin bendir þó til þess að nemendur í 4. bekk hafi ekki hlutfallslegt forskot á jafnaldra sína á samræmdum könnunarprófum í stærðfræði í íslensku þótt þeir stundi nám í skólum sem innleitt hafa Byrjendalæsi í 1. og 2. bekk. Samkvæmt aðferðafræði stofnunarinnar virðist þó sem síðasti árgangur í aðdraganda Byrjendalæsis skori hærra en árgangarnir á undan og eftir.
Innra mat á framvindu er afar mikilvægur þáttur í aðferðafræði Byrjendalæsis og verkefnið er í sífelldri framþróun. Vandað ytra mat getur jafnframt skipt miklu máli í þessari vinnu og því ber að fagna auknum áhuga ríkisvaldsins á þeim málum. Því miður getur minnisblað Menntamálastofnunar ekki talist mikilvægt framlag á því sviði.
Virðingarfyllst,
Birna María Svanbjörnsdóttir, forstöðumaður miðstöðvar skólaþróunar