Miðstöð skólaþróunar býður upp á fjölbreytt námskeið sem tengjast starfsháttum skóla:
Skólastarf er síbreytilegt og lifandi þar sem mismunandi ytri og innri þættir hafa áhrif á nám og starf starfsmanna og nemenda og þróun skóla sem stofnana. Árangursrík og fagleg starfsþróun byggist á styðjandi, gagnrýnu og uppbyggjandi hugarfari og vinnubrögðum í starfinu sjálfu og sem hluti af því með áhersla á almenna virka þátttöku og forystuhæfni. Menning sem styður við slíka starfshætti og viðheldur þeim getur rúmast innan þess sem kalla má lærdómssamfélag (e. professional learning community).
Í þróunarverkefninu verður fjallað um hvernig skólamenning það er sem ýtir undir nám allra og stuðlar að starfsþróun. Hvað þarf að vera til staðar og hvernig má hlúa að því? Fjallað verður um hagnýt verkfæri sem nýta má í þeim tilgangi og leitað leiða til að þróa teymisvinnu, markvissa ígrundun og jafningjastuðning sem verkfæri í lærdómssamfélagi. Einnig verður unnið með matstæki til að meta lærdómssamfélag.
Forystu og leiðtogahæfni - að byggja upp lærdómssamfélag í skóla.
Hvernig verður teymi að lærdómsteymi og hvað þarf til að ná þeim áfanga er það sem þetta þróunarverkefni snýst um. Aguilar, E. (2016) heldur því fram að til þess að byggja upp teymi þar sem starfið einkennist af þrautseigju og þróun starfhátta verði að byggja upp traust. Til þess að byggja upp traust verða meðlimir að þekkja sjálfa sig mjög vel því þroski teymisins byggist á því hvernig hver og einn þekkir sjálfan sig og einnig aðra meðlimi. Skipulag teymisins og heilbrigð og hreinskiptin samskipti skipta mikilu máli við ákvarðanatöku. Að þekkja sögu hvers annars, bakgrunn, gildi, trú, vonir og drauma, færni og hæfileika og ótta og áhyggjur er mikilvægt. Sú þekking hjálpar til við að rækta samkennd hvert með öðru þannig að skilningur verður til staðar á hegðun eða viðbrögðum meðlima. Það verður að tryggja að meðlimir þekki hver annan og byggja upp samfélag byggt á persónulegum og faglegum grunni þar sem gagnkvæm virðing ríkir milli allra.
Nánar um þróunarstarf tengt teymisvinnu.
Miðstöð skólaþróunar hefur sett saman áætlun um stuðning við starfsfólk innan skóla við innleiðingu aðalnámskrár, stefnumótun, gerð skólasýnar og skólanámskrár með áherslu á grunnþætti menntunar, lykilhæfni og innra mat. Lögð er áhersla á að einstaklingar innan námsamfélagsins eigi hlutdeild í ferlinu, leggi sitt af mörkum og taki þannig þátt í að skapa námsvettvang í takt við samfélagið og umhverfið.
Námskrá er tæki til mótunar, hún er samningur námsamfélagsins og í henni er gefin yfirlýsing um hvers konar hugsun og viðhorf skuli einkenna skólastarf og ferli menntunar. Ferlið ætti að fela í sér stöðuga viðleitni námsamfélagsins til að gera betur og þróa skólastarfið til enn betri vegar.
Vinnan felst í að halda fundi með kennurum og öðru starfsfólki og samráðsfundi með stjórnendum og námskrárteymi. Sérstakir námskrárteymisfundir eru haldnir u.þ.b. mánaðarlega og haldið er utan um vinnuferlið með fundargerðum.
Nánar um ráðgjöf MSHA í skólanámskrárgerð.
Samstarf við fjölskyldur verður alltaf stór þáttur í skólastarfi. Fjölskyldur eru mismunandi og bakgrunnur þeirra og aðstæður ólíkar. Það er á ábyrgð skóla og kennara að virkja samstarf við fjölskyldur og leita leiða til að tengja tvo mikilvægustu heima nemenda, heimilið og skólann. Á námskeiðinu verður farið yfir helstu hugtök sem tengjast samstarfi heimila og skóla og einnig verður byrjað á vinnu með þátttakendum sem miðar af því að styrkja og efla samstarf heimila og skóla og nýtist beint í skólastarfið.
Nánar um námskeið MSHA um samstarf við fjölskyldur.
Matstæki
Matstæki fyrir lærdómssamfélag
Lærdómssamfélag grunnskóla - stöðumat
Breyting á skólamenningu - leikskólar
Mælitæki fimm vídda faglegs lærdómssamfélags í leikskólum