Undir oki upplýsinga(r)
Draumsýn þeirra sem lögðu grunninn að því sem nú til dags er oft kallað internetið var í sinni einföldustu mynd sú að búa til verkfæri sem gerði fólki kleyft að vinna saman og nálgast upplýsingar. Með hverju árinu sem líður má segja að menn hafi færst sífellt nær því marki. Hins vegar má jafnframt spyrja hvort draumsýnin um að vita meira og tengjast fleirum hafi í raun leitt af sér hið gagnstæða. Sú umræða sem á sér stað víða í heiminum um stöðu upplýsingatækninnar innan skólakerfisins endurspeglar margar af þeim lykilspurningum sem uppi eru í samfélaginu um eðli hinnar ‚nýju‘ tækni og þau áhrif sem hún kann að hafa á samfélagið til lengri tíma. Þær samfélagsbreytingar sem orðið hafa með tilkomu internetsins og þeirra fjölbreytilegu tækja sem nota má til að tengjast netinu eiga sér ýmsar hliðstæður í sögunni og meðal annars því tímabili sem kallað hefur verið ‚upplýsingin‘ eða upplýsingaöldin. Spyrja má hvort samfélagsþróun okkar tíma muni á endanum leiða af sér jafn djúpstæðar breytingar og urðu með upplýsingunni eða hvort við á endanum týnum hvert öðru í óravíddum internetsins. Þessar spurningar og fleiri verða ræddar í ljósi rannsókna sem gerðar hafa verið undanfarin ár um netnotkun barna og kenninga sem þróaðar hafa verið á þeim grunni.
Kjartan Ólafsson er félagsfræðingur og deildarformaður félagsvísindadeildar Háskólans á Akureyri. Hann hefur í meira en 20 ár stundað rannsóknir sem tengjast högum og líðan ungs fólks með ýmsum hætti. Frá árinu 2006 hefur hann einkum unnið að rannsóknum á netnotkun barna í Evrópu og ritað meira en 50 greinar, bókarkafla og skýrslur um það efni.
Glærur
|